Icelandair næst-óstundvísast í Bretlandi

20.05.2017 - 00:49
Mynd með færslu
 Mynd:  -  Pixabay.com
Icelandair er eitt þriggja óstundvísustu flugfélaga í millilandaflugi til Bretlands. Þetta er á meðal niðurstaðna rannsóknar á vegum tímaritsins Which?, sem gefið er út af bresku neytendasamtökunum. Hin flugfélögin tvö eru Norwegian Air Shuttle og kanadíska félagið Air Transat. Könnun samtakanna nær til 850.000 flugferða til 25 flugvalla á Bretlandseyjum. Að meðaltali stóðust tímaáætlanir einungis í 75 prósentum tilfella.

Stundvísasta flugfélagið reyndist hið konunglega, hollenska flugfélag, KLM, og Qatar Airways komst næst þeim að stundvísi. Air Transat er allra flugfélaga lélegast í að halda áætlun, aðeins 55 prósent véla á þeirra vegum lentu innan við 15 mínútum frá áætluðum lendingartíma. Icelandair stóð sig litlu betur, einungis 56 prósent Icelandair-véla lentu á réttum tíma, en 60% véla frá Norwegian Air Shuttle lentu innan við stundarfjórðungi frá tilsettum lendingartíma.

Í frétt BBC af könnuninni segir að Icelandair kenni meðal annars verkföllum flugumferðarstjóra og viðhaldsframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli um seinkanirnar. Air Transat, sem er með höfuðstöðvar í Montreal, segir þá sem gerðu könnunina ekki hafa tekið tillit til seinkana sem orðið hafi af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem veðri og fyrirmælum úr flugturni. Ef horft er framhjá töfum af þessum völdum, segja forsvarsmenn kanadíska félagsins, séu 78% véla þeirra á réttum tíma. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV