Íbúum fjölgar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins

21.08.2017 - 10:56
Íbúum fjölgar mikið í nágrenni höfuðborgarinnar en víðast hvar vantar húsnæði. Tvær fjölskyldur sem fluttu nýlega á Akranes segja að gæðastundum fjölskyldunnar fjölgi fjarri höfuðborginni.

Fólk leitar í lægra fasteignaverð

Sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru að stækka hratt. Innflytjendum fjölgar og æ fleiri hafa leitað í lægra fasteignaverð. Á Akranesi hefur fasteignaverð hækkað einna mest síðastliðið ár og orðið erfitt að fá húsnæði.

Fleiri gæðastundir

Hulda Birna Baldursdóttir flutti ásamt fjölskyldu sinni í bæinn í vor og segir þetta mikil viðbrigði: „Þetta breyttist mjög mikið, það er mikið minna skutla og sækja. Við vorum svolítið í því milli klukkan fimm og sjö hvern dag - að skutla og sækja. Við erum með fjögur börn en núna er það alveg af.“ Hulda Birna segist hafa grætt tíma. „Þrátt fyrir að ég er í mjög krefjandi starfi, eiginlega 24 tíma í vinnunni.“ Nú hitti hún börnin sín til dæmis í hádegismat sem sé gæðastund með börnunum sem hún hafði ekki kynnst áður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Íbúum fjölgar í nágrannasveitarfélögum

Fjölgunin frá því í fyrrasumar hefur verið nokkuð mikil. Langmest í Reykjanesbæ, um átta og hálft prósent. Nokkru minni í Árborg, þrjú og hálft prósent en 1,7 prósent á Akranesi. Helsta ástæða þess að það fjölgar ekki meira, að sögn bæjarstjórans, er að það vantar húsnæði: „Við þurfum að bæta í og þess vegna erum við að koma inn með um 650 íbúðir sem getur tekið þennan bæ á næstu þremur árum úr svona 7000 manns í 8000 manns – plús. Verktakar hafa mjög mikinn áhuga á að byggja hér upp og finna áhuga fyrir bænum,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.

Fundu ekki húsnæði á höfuðborgarsvæðinu

Á Vesturgötunni á Akranesi býr fjölskylda sem flutti í bæinn í sumar. Þau höfðu ekki efni á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en keyptu einbýlishús á Skaganum og hafa gert það upp í sumar. „Við fluttum 1. maí, komum hingað eftir að hafa safnað helling af pening en ekki fundið neitt í bænum. Þetta stóð til boða og við gætum ekki verið sælli,“ segir Þorbjörg María Ólafsdóttir.

Er raunhæft að búa hér og vinna í borginni?

„Já, algjörlega. Ég er með mjög góðan vinnuveitanda sem sýnir því skilning og vegalengdirnar eru ekki það miklar, ekki til að kvarta yfir,“ segir Ágúst Bernahardsson Linn. „Systir mín var einmitt að flytja hingað uppá Skaga frá Bandaríkjunum og henni finnst þetta alls ekki langt, miðað við það hvað hún var að keyra í vinnuna á hverjum degi.“

Og saknið þið einhvers úr borginni.

„Nei, einskis sem ég get hugsað um akkúrat núna,“ segir Þorbjörg María. „KFC, það mætti koma á Akranes,“ segir Ágúst.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV