Íbúar Púertó Ríkó búa sig undir hið versta

epa06186467 People carry bottles of water to a shelter in San Juan, Puerto Rico, 05 September 2017. Puerto Rico is taking measures ahead of the passage of Hurricane Irma, which is on the verge of impacting the Caribbean Lesser Antilles as it reached the
Fólk á Púertó Ríkó hefur birgt sig upp af vatni, þurrmat og niðursuðuvöru í aðdraganda hamfaranna  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Á Karíbahafseyjaklasanum Púertó Ríkó eru íbúar nú í óða önn að búa sig undir hamfarirnar sem óhjákvæmilega fylgja fellibylnum Irmu, sem reiknað er með að hamast muni á eyjunum upp úr hádegi á miðvikudag. Irma er fimmta stigs fellibylur og hefur meðalvindhraði þegar náð um 300 kílómetrum á klukkustund, eða 83 metrum á sekúndu. Líklegt þykir að Irma verði öflugasti fellibylur sem um getur á þessum slóðum, áður en yfir lýkur.

Fjölmörg neyðarskýli hafa verið opnuð og Ricardo Rosello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, hvetur eyjarskeggja til að tryggja öryggi sitt og sinna en huga jafnframt að þeim sem eru hjálpar þurfi, ekki síst öldruðum.

Donald Trump hefur þegar lýst yfir neyðarástandi á eyjunum, sem eru bandarískt yfirráðasvæði sem hefur lítið um eigin málefni að segja. Þetta veitir yfirvöldum á Púertó Ríkó greiðari aðgang að neyðarsjóðum og -aðstoð frá bandarískum alríkisstofnunum. Neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir á Bandarísku Jómfrúareyjum, þar sem um 100.000 manns búa, og í Flórídaríki, þar sem 21 milljón á heima. Ráðuneyti heimavarna og Hamfarastofnunin, sem undir það heyrir, hafa því yfirtekið aðgerðastjórn vegna hamfaranna og samræma aðgerðir hjálpar-, öryggis- og björgunaraðila á bandarísku áhrifasvæði Irmu. 

Um 3,5 milljónir manna búa á Púertó Ríkó og fátækt er þar mikil. Um 45 prósent íbúa teljast undir fátæktarmörkum. Rosello og stjórn hans vilja að landið verði formlega gert að 51. ríki Bandaríkjanna og telja það vænlega leið til að styrkja efnahag og velferð þjóðarinnar. Púertóríkanar virðast sammála stjórninni, því 97 prósent þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál í sumar lýstu sig fylgjandi þessari lausn.

Fréttin hefur verið uppfærð.