Íbúamet í Hveragerði 3. árið í röð

07.01.2016 - 17:26
Mynd með færslu
Frá Hveragerði  Mynd: hveragerdi.is
Aldrei hafa jafnmargir búið í Hveragerði og nú. Þar bjuggu nú um áramót 2462, að því er fram kemur á heimasíðu Hveragerðisbæjar, með tilvísun í Þjóðskrá. Sé miðað við tölur Hagstofu Íslands eru þetta þriðju áramótin í röð sem sett er met í íbúafjölda í Hveragerðisbæ.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru Hvergerðingar 1668 í ársbyrjun 1998 og hefur því fjölgað um helming síðan. Fjölgað hefur á hverju ári, utan á árunum 2009 og 2011. Í ársbyrjun 2014 voru íbúarnir 2333, í fyrra 2384 og nú samkvæmt nýjustu tölum yfir 2460. Miðað við það hefur Hvergerðingum fjölgað frá í fyrra um ríflega 3 prósent.  

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri sagði í viðtali við Fréttastofu fyrir skömmu að bæjaryfirvöld finni vel fyrir hraðri fjölgun í sveitarfélaginu. Bærinn þyrfti nú að kaupa land undir raðhúsalóðir og skipuleggja ný hverfi. Í nágrannasveitarfélaginu Ölfusi er fjölgunin í fyrra tæp 4 prósent. Bæði sveitarfélögin hafa lækkað verð á byggingarlóðum verulega og í báðum er fjölgunin yfir landsmeðaltali. Drjúgur hluti nýrra íbúa kemur af Reykjavíkursvæðinu.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV