Iain Duncan Smith segir af sér

18.03.2016 - 22:19
epa04743343 British Member of Parliament Iain Duncan Smith arrives at No 10 Downing Street, central London, England, 11 May 2015, for the government cabinet reshuffle where he was reappointed as Secretary of State for Work and Pensions. British Prime
 Mynd: EPA
Iain Duncan Smith, vinnu- og lífeyrismálaráðherra Bretlands, sagði af sér í kvöld vegna fyrirhugaðra skerðinga á örorkubótum, sem George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, kynnti í vikunni.

Smith segir að breytingarnar feli í sér málamiðlun sem gengið hafi of langt. Ekki sé hægt að réttlæta það að breytingarnar komi sér best fyrir skattgreiðendur í hærri tekjuhópum. 

Osborne kynnti á miðvikudag áformaðar breytingar sem fela í sér 1,3 milljarða punda niðurskurð á frumvarpi sem snýr að því að aðstoða fjárhagslega fólk sem glímir við langvinn veikindi eða fötlun. 

Frumvarpið hafði verið gagnrýnt á breska þinginu. Haft hefur verið eftir Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, að breytingarnar hafi það í för með sér að 200 þúsund manns missi bætur sínar. Alls hafi breytingarnar áhrif á 640 þúsund manns. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV