„Í hæsta máta óeðlilegt“

14.01.2016 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
„Okkur finnst í hæsta máta óeðlilegt að stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum sitji í stjórnum annarra fyrirtækja, svo ekki sé talað um þeirra fyrirtækja þar sem einstaklingar eiga sjálfir hagsmuna að gæta,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. Stjórn félagsins samþykkti í gærkvöld ályktun um breytingar á tilnefningum í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Þar lýsir stjórn VR því yfir að fulltrúar félagsins sem tilnefndir verða í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eigi ekki sæti í stjórnum fyrirtækja eða félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. 

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir að í desember hafi í fyrsta sinn verið auglýst eftir stjórnarmönnum hjá lífeyrissjóðinum. 40 hafi sótt um.

„Við vonumst til þess að þessi ákvörðun verði til þess að mynda meira traust og meiri trúverðugleika um stjórnarstörf þessara einstaklinga sem við erum að skipa þarna inn. Við þurfum á því að halda,“ segir hún. 

VR og Samtök atvinnulífsins þurfa hvort um sig að tilnefna fjóra aðalmenn og fjóra varamenn í stjórn lífeyrissjóðsins fyrir 1. febrúar næstkomandi. Stjórn VR gerir í ályktuninni þá kröfu til Samtaka atvinnurekenda að þau tilnefni sína fulltrúa í stjórn sjóðsins með sama hætti og VR hefur nú ákveðið að gera. „Við erum eingöngu að fara fram á það að atvinnurekendur skipi í sína stjórn á sama máta hvað varðar það að þeir einstaklingar sem koma þar inn sitji ekki í stjórnum annarra fyrirtækja.“