Í gæsluvarðhaldi fram á miðvikudag - myndskeið

06.03.2016 - 17:52
Maður sem stakk annan fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu í nótt var leiddur fyrir dómara fyrir skömmu þar sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudags. Maðurinn var handtekinn í nótt og vistaður í fangageymslu. Hann var þó ekki yfirheyrður fyrr en seinni partinn.

Sá sem fyrir árásinni varð missti mikið blóð en hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum í nótt. Hann er þungt haldinn eftir árásina og hefur verið haldið sofandi.

Mennirnir tveir eru félagar og báðir fæddir árið 1989 samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Svo virðist sem einhver ágreiningur hafi komið upp á milli þeirra sem endaði með því að annar tók upp hníf og stakk hinn í bakið. Árásin átti sér stað utandyra, á Sæmundargötu, við stúdentagarðana.

Blaðamaður Morgunblaðsins varð vitni að árásinni en henni er lýst nokkuð ítarlega á MBL. Þar segir að mennirnir hafi skipst á hnefahöggum um stund og tekið svo að glíma hvor við annan. Fáeinum sekúndum síðar lauk áflogunum og gengu þeir á brott, hvor í sína átt. 

Blæddi þá mikið úr baki annars mannsins og kallaði kona til hans af svölum íbúðar á Stúdentagörðunum og lét hann vita að það blæddi úr honum. Skömmu síðar kom lögregla á vettvang og fyrir utan húsið mátti sjá stórar blóðslettur á gangstéttinni.