Hyggja á stórsókn eftir að hafa náð Palmyra

27.03.2016 - 16:02
epa05231923 A handout photo made available by the official Syrian Arab News Agency (SANA) shows Syrian government soldiers holding the national flag and posing during an operation in Palmyra, central Homs province, Syria, 26 March 2016. According to SANA,
 Mynd: EPA  -  SANA
Stjórnarherinn í Sýrlandi er í sóknarhug eftir að hafa náð borginni Palmyra úr höndum vígamanna í nótt. Forseti landsins segir að herinn sé skrefi nær því að brjóta hryðjuverkamenn á bak aftur.

 

Enn heyrist skothríð

Tíðindamaður AFP fréttastofunnar sem fylgst hefur með bardögunum um Palmyra síðustu sólarhringa greindi frá því í morgun að stjórnarherinn hefði hana alla á valdi sínu, jafnt gamla hlutann sem er á heimsminjaskrá menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem þann nýrri þar sem fólk býr og starfar. Sýrlenska mannréttindavaktin staðfesti síðan í dag að vígamenn hins svonefnda Íslamska ríkis hefðu verið hraktir á flótta austur á bóginn. Enn mætti þó heyra skothríð í austurhluta Palmyra.

Hamingjuóskir frá Rússlandsforseta

Bashar Al-Assad Sýrlandsforseti sagði þegar hann hitti franska þingmenn að máli í Damaskus í dag að mikilvægur áfangi hefði náðst í baráttunni við hryðjuverkamenn í landinu. Árangurinn í Palmyra sýndi að hernaðaráætlun stjórnarhersins væri rétt. Herstjórnin segir að nú verði kné látið fylgja kviði og ráðast til atlögu gegn hryðjuverkamönnum í borgunum Deir Ezzor í austri og Raqqa í norðri.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræddi í dag í síma við Al-Assad og óskaði honum til hamingju með árangur stjórnarhersins. Hann naut einmitt liðsinnis rússnskra herflugvéla sem vörpuðu sprengjur á búðir vígamannanna meðan stjórnarherinn sóttið að þeim á landi ásamt hersveititum síta-múslima.

Minni skemmdir en óttast var

Vígamenn Íslamska ríkisins náðu Palmyra á sitt vald í maí í fyrra. Í borginni eru meðal annars tvö 2.000 ára gömul hof og fleiri fornar byggingar. Óttast var að hryðjuverkamennirnir hefðu unnið óbætanlegt tjón á fornminjunum. Maamoun Abdulkarim, þjóðminjavörður í Sýrlandi, sagði síðdegis, eftir að hafa kannað skemmdirnar að ástandið væri mun betra en hann hefði þorað að vona. Mikið af gamla borgarhlutanum væri í lagi og það sem skemmt hefði verið mætti lagfæra með tíð og tíma. 

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV