Hvetur Suu Kyi til að stöðva aðgerðir hersins

13.09.2017 - 16:44
epa06188349 A handout photo made available by Televisa shows General Secretary of the UN Antonio Guterres, as he speaks in an interview, in New York City, New York, USA,  06 September 2017. Guterres commented on human rights in Venezuela and his hope that
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: EPA-EFE  -  Televisa/EFE
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í dag Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, til að stöðva aðgerðir hersins  gegn Rohingjum í Rakhine-héraði. Guterres ræddi í dag við fréttamenn um atburðina í Mjanmar.

Nærri 380.000 Rohingjar hafa flúið frá Rakhine yfir landamærin til Bangladess síðan herinn lét til skarar skríða í síðasta mánuði. Aðgerðum hersins hefur verið líkt við þjóðernishreinsanir og hefur Suu Kyi sætt vaxandi gagnrýni fyrir að bregðast ekki við.

Aðspurður um hvort skilgreina mætti aðgerðir hersins sem þjóðernishreinsanir svaraði hann með þeirri spurningu hvort til væri betra orð til að lýsa ástandinu í ljósi þess að þriðjungur Rohingja hefði flúið frá Mjanmar á undanförnum vikum. 

Tilkynnt var í morgun að hún ætlaði ekki að sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York vegna atburðanna í Rakhine og hryðjuverka í landinu. Síðar var greint frá því að hún ætlaði að ávarpa þjóðina um málið í næstu viku.