Hvers er að minnast?

Sigurðar Nordals fyrirlestur
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Hvers er að minnast?

Sigurðar Nordals fyrirlestur
 · 
Mannlíf
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
12.09.2017 - 15:50.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Hvað verður um hafsjó upplýsinga um okkur sem lifum á tímum stafrænna miðla? Munu afkomendur okkar hafa aðgang að tölvupóstum okkar og einkaskilaboðum?

„Ég held að við höldum að allt varðveitist,“ segir Gunnþórunn, „að allt varðveitist, því tölvurnar geti munað allt.“ Hins vegar segir hún að við þurfum stöðugt að vera meðvituð um að taka afrit og finna góðar geymsluaðferðir, en það geti einnig verið streituvaldandi að velta því fyrir sér hvað í verður um öll þessi gögn sem við erum stöðugt að búa til og safna að okkur.

Stafræna byltingin breytir heimildunum 

„Það er ofboðsleg breyting á því sem við getum kallað fjölskylduskjalasafnið,“ segir Gunnþórunn og á þar við bréf, ljósmyndir og dagbækur. „Við skrifum ekki bréf lengur, við eigum fyrst og fremst samskipti í gegnum tæki og samskiptamiðla. Ljósmyndir okkar birtum við yfirleitt jafnóðum á Instagram eða sambærilegum miðlum. Við eigum ekki fjölskyldualbúm lengur.“ Gunnþórunn segir að við þurfum að velta fyrir okkur hvað gerist þegar næsta kynslóð skrifar um fjölskylduna sína? Hvar nær hún í efnið? Verður það yfirleitt aðgengilegt?

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay  -  Pexels
„Við eigum ekki fjölskyldualbúm lengur.“

Ofgnótt upplýsinga

En með stafrænu tækninni fylgir auðvitað líka að gögnunum fylgja aukaupplýsingar, til dæmis tímasetningar og jafnvel nákvæm staðsetning þar sem ljósmyndir eru teknar. „Við treystum of mikið á tæknina. Við höfum aldrei nokkurn tímann haft jafnmikið af upplýsingum um okkur sjálf. Ég get auðveldlega flett upp sjálfri mér, hvað ég var að gera á ákveðnum tímum,“ segir Gunnþórunn. „En hvað gerist þegar Facebook dettur úr tísku? Hvað verður um þessar myndir, hver á þær í raun og veru? Hvernig erfast svona stafræn spor?“

Sífellt fleiri segja sögu sína

„Aldrei hafa jafnmargir verið að segja sögu sína eins og í dag. Aldrei hefur fólk alls staðar að úr þjóðfélaginu haft svona mikið opinbert rými til þess að segja sögu sína - lýsa ferðalögum! Hver skoðaði myndir úr ferðalögum annars fólks hér áður fyrr?“ segir Gunnþórunn og hlær. Hún bætir við að þessi stöðuga tjáning sé þó bundin við daginn í dag. „Okkur finnst við ekki vera að varðveita eitthvað til langframa, heldur erum við fyrst og fremst að tjá okkar sjálfsmynd í þessum hópi,“ segir hún og á þá við samskiptamiðla. 

Og við gleymum þessum upplýsingum kannski jafnóðum?

Já ég held að samband okkar við ljósmyndina sé að breytast.“

Okkur finnst samskiptin hverfa en allt er skráð

Sendibréf hafa verið uppistaða í mörgum ævisögum og sagnfræðiritum, en heyra nú brátt sögunni til. Stórfyrirtæki á borð við Facebook og Google eiga gögnin okkar og samskipti.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels  -  Pixabay

„Okkur finnst samskiptin hverfa jafnóðum en einhvers staðar eru þau til,“ segir Gunnþórunn. „En mun einhver hafa aðgang að þeim og verður hægt að lesa úr þeim?“ Tæknin sem við erum svo háð virðist úreldast jafnóðum svo hugsanlega verður erfitt að nálgast heimildir um okkar tíma í framtíðinni. 

Ímyndasköpun og sögufölsun

Hin hliðin er sú að í ljósi þess að Facebook er ekki síst vettvangur ímyndasköpunar erum við hugsanlega vandlátari hvað varðar það sem við setjum fram. „Vegna þess að við erum að gera þetta svona opinberlega þá gefur þetta aðeins aðra sýn heldur en þegar við vorum að senda einkabréf,“ segir Gunnþórunn.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði flutti Sigurðar Nordals fyrirlesturinn í Norræna húsinu fimmtudaginn 14. september 2017.

Viðtalið var flutt í Víðsjá, þriðjudaginn 12. september.