Hvernig ræna má lýðræðinu

17.05.2017 - 17:00
Á Vesturlöndum hafa lög um fjármögnun kosninga lengi verið við lýði. Meint afskipti Robert Mercers hægrisinnaðs bandarísks auðjöfurs af bresku atkvæðagreiðslunni í fyrra um Evrópusambandsaðildina leiðir athyglina bæði að fjármögnun kosninga og eins að notkun upplýsinga um kjósendur sem er safnað af samfélagsmiðlum. Í fyrri pistli af tveimur fjallar Sigrún Davíðsdóttir um fjármögnunina og kosningaeftirlit í Bretlandi.

Grunsemdir um bandarískt fé í Brexit-atkvæðagreiðsluna

Í Bretlandi líkt og víðar eru strangar reglur um fjármögnun kosningabaráttu. Ein reglan er að erlendir einstaklingar eða fyrirtæki mega ekki fjármagna kosningabaráttu hérlendra. Og flokkar eða baráttuhópar mega heldur ekki samhæfa aðgerðir nema upplýsa um það.

Dagblaðið Guardian hefur undanfarið birt greinar sem benda til að báðar þessar reglur hafi verið brotnar af hópum sem börðust fyrir Brexit, úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Athyglin beinist að hlut bandaríska auðkýfingsins Robert Mercers og gagnaúrvinnslu-fyrirtækjum sem hann á í.

Mercer og Cambridge Analytica

Bandaríska blaðakonan Jane Mayer hefur um árabil fjallað um pólitísk umsvif mjög hægrisinnaðra auðjöfra í heimalandinu. Þeir hafa í um fjóra áratugi fjármagnað hugmyndaveitur og baráttuhópa til að berjast fyrir þjóðfélagi þar sem ríkisvaldið kæmist fyrir á títuprjónshaus, eins og einn viðmælandi Mayers sagði. Um þetta er bók Mayers, Dark Money, eða Myrkrafé, sem Spegillinn hefur áður fjallað um. Og Mayer skrifaði langa grein um Mercer nú í mars.

Mercer er góðkunningi Nigel Farage fyrrum leiðtoga breska and-ESB hægriflokksins Ukip. Og líkt og Farage er Mercer lítið gefið um Evrópusambandið.

Aðferðirnar í Brexit-baráttunni

Umfjöllun Guardian snýst um framlög Mercers í Brexit-baráttuna í fyrra, líka þjónustu gagnaúrvinnslufyrirtækisins Cambridge Analytica í eigu Mercers. Fyrirtækið varð frægt fyrir að vinna fyrir forsetaframbjóðandann Donald Trump sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja að hafi unnið út á tækni Cambridge Analytica.

Guardian telur að fé Mercers hafi runnið í baráttuna í gegnum samtök gegn ESB, til dæmis grasrótarhóp hermanna gegn ESB. Þessari notkun fjár hefur Mayer lýst: hvernig bandarísku auðjöfrarnir fjármagna hópa sem virðast grasrótarhópar eða rannsóknarstofnanir en eru í raun aðeins framhlið með ákveðið útlit og svo pening til að vinna hugmyndum auðkýfinganna brautargengi.

Íslensk kynni af svipuðum vinnubrögðum

Íslendingar kynntust þessum vinnubrögðum í fyrra þegar allt í einu spruttu fram samtök sem kölluðu sig Iceland Watch, á vegum Institute for Liberty, til að berjast gegn aflandskrónuaðgerðum íslenskra stjórnvalda. Þessi stofnun barðist síðast 2009 gegn heilbrigðistryggingu Obama, Obamacare en hafði nú allt í einu hundruð milljóna króna til að auglýsa í áhrifamestu dagblöðum í heimi. Að ógleymdum auglýsingum í íslenskum miðlum á einhverri hráka-íslensku.

Þörf á víðari könnun en Electoral Commission ræður við

En aftur að umfjöllun breskra fjölmiðla um meint afskipti Mercers sem leiðir athyglina að tvennu: annars vegar meintum lögbrotum. Hins vegar hvort kosningaeftirlitsstofnanir séu nógu burðugar.

Electoral Commission er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem fylgist með breskum kosningum og fjármögnun þeirra. Á and-ESB vængnum í fyrra voru tvö aðal-samtökin með ólíkar áherslur: Vote Leave, opinber samtök ESB-andstæðinga og svo Leave.EU. Eftir umfjöllun í vetur og vor ákvað Electoral Commission nú í apríl að kanna annars vegar hvort einhver framlög til Leave.EU, bæði fé og þjónusta, stangist á við lög og eins hvort samtökin hafi leynt framlögum.

Guardian hefur hins vegar sýnt fram á undanfarið að það er ekki síður ástæða til að kanna fjármögnun og starfsemi Vote Leave samtakanna, bæði samtengingu hópa og eins möguleg framlög Mercers. Þetta verði að rannsaka af því áhrifin séu þau sem segir í einni fyrirsögn Guardian: ,,Hvernig lýðræði okkar var rænt.”

Er kosningaeftirlit í takt við tímann?

Þessar síðustu uppljóstranir víkja aftur athyglinni að getu kosningaeftirlitsstofnunarinnar til að kanna í þaula fjármögnun kosningabaráttu. Guardian heldur því fram að stofnunin geti ekki komist til botns í málinu því hún geti ekki leitað efnis út fyrir landsteinana, að upptökum meintra erlendra framlaga. Ef þetta verður raunin væri kosningaeftirlit í Bretlandi liðónýtt því á tímum hnattvæðingar eru fjárstraumanir alþjóðlegir, gagnslaust að geta ekki fylgt þeim eftir.

Í viðbót er svo spurningin um áhrif fyrirtækisins Cambridge Analytica, í eigu Mercers, á bresku atkvæðagreiðsluna í fyrra. Hvort tæknin sem fyrirtækið státar af hafi þau áhrif sem ætlað er. Önnur saga sem bíður betri tíma.

Könnun Brexit-atkvæðagreiðslunnar hnekkir ekki úrslitunum

Engum dettur í hug að rannsóknin á fjármögnun Brexit-baráttunnar í fyrra hafi afturvirk áhrif. Niðurstöðunum verður ekki breytt. En umfjöllunin sýnir nauðsyn eftirlits og að eftirlitstofnanir hafi þá fé og mannskap til að fylgjast með nútímavæddum kosningum. Svo já, kjósendur geti verið vissir um að auðkýfingar og aðrir hagsmunahópar ræni ekki lýðræðinu.

 

Mynd með færslu
Sigrún Davíðsdóttir
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi