Hverfisráð ósátt við Secret Solstice

13.09.2017 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Draumland
Hverfisráð Laugardals gerir alvarlegar athugasemdir við það verklag og vinnubrögð tónleikahaldara Secret Solstice að auglýsa hátíðina fyrir árið 2018 og hefja miðasölu án samráðs við borgina. Þetta kemur fram í bókun ráðsins á fundi 28. ágúst síðastliðinn.

Ráðið gagnrýnir einnig að tímasetning og lengd hátíðarinnar á næsta ári, 21. til 24. júní, hafi verið ákveðin án samráðs við borgina. Í bókuninni segir að lengd hátíðarinnar hafi verið ákveðin tímabundið í fyrra og í ár. „Þessi einhliða ákvörðun tónleikahaldara er ekki í samræmi við fyrri yfirlýsingar þeirra um mikinn vilja til samráðs við íbúa hverfisins og hagsmunaaðila,“ segir í bókuninni.

Frestur til að skila inn umsögnum vegna hátíðarinnar í ár rann út 1. september. Í bókun hverfisráðsins segir að það geti ekki lokið sinni umsögn fyrr en að þeim fresti liðnum. Í þeirri vinnu felist meðal annars að vinna úr umsögnum og athugasemdum meðal annars frá heilbrigðiseftirliti, lögreglu, Íbúasamtökum Laugardals, Þrótti og fleirum.

Reykjavíkurborg og hluti íbúa í Laugardal voru ósátt við hvernig aðstandendur Secret Solstice tónleikahátíðarinnar skildu við Laugardalinn eftir síðustu hátíð. Drasl eftir hátíðina var á víð og dreif um dalinn og var ekki hreinsað strax næsta dag eftir að hátíðinni lauk.