Hverfi með 300 íbúðum

21.01.2016 - 19:09
Höfuðstöðvar Íslandsbanka
 Mynd: RÚV
Hverfi með 300 íbúðum og atvinnu- og þjónustustarfsemi rís á Kirkjusandi samkvæmt nýju deiliskipulagi sem borgarráð hefur ákveðið að auglýsa.

Reykjavíkurborg ráðstafar 150 íbúðum af þessum 300 og verður hluti af þeim leiguíbúðir. Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að vandað verði til hönnunar og stefnt sé að fjölbreytilegri hönnun húsa og yfirbragði á reitnum. Íbúðirnar verða misstórar og henta jafnt einstaklingum sem stærri fjölskyldum. Gott aðgengi verður fyrir fólk með skerta hreyfigetu. Um er að ræða tvær lóðir, Kirkjusand 2 og Borgartún 41 en með breyttu deiliskipulagi verða lóðirnar níu. Gert ráð fyrir aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. 

Samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Íslandsbanka verður efnt til samkeppni um gerð listaverks sem koma á fyrir í hverfinu.  

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV