Hver er ábyrgð uppboðshússins?

15.02.2016 - 16:17
Uppboðshúsið Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn sem auglýsti uppboð á tveimur myndum eftir Svavar Guðnason haustið 2014 á gögn unnin af Ólafi Inga Jónssyni forverði þar sem önnur myndanna var flokkuð sem fölsun. Ólafur Ingi telur óskiljanlegt að uppboðshús sem á uppfylla alþjóðlegar kröfur skuli ekki vera betur á varðbergi þegar myndir merktar Svavari berast því.

Annað málverkanna sem sagt var vera eftir Svavar Guðnason og lögreglan í Kaupmannahöfn  lagði hald á rétt áður en átti að bjóða það upp var á lista sem Ólafur Ingi Jónsson forvörður hafði gert af fölsuðum verkum merktum Svavari og uppboðshúsið, Bruun Rasmussen, á að hafa undir höndum. Ekki eru nema nokkur ár síðan sama uppboðshús endurgreiddi manni sem hafði keypt verk merkt Svavari en Ólafur Ingi mat sem fölsun . Efnahagsbrotadeild  Kaupmannahafnarlögreglunnar hefur vísað málinu frá á þeim forsendum að meint brot séu fyrnd.

Ólafur Ingi sá á heimasíðu uppboðshússins haustið 2014 að bjóða ætti upp tvö verk Svavars Guðnasonar sem hann taldi augljóslega fölsuð. Annað kannaðist hann við frá fyrri athugun. Hann kærði málið til sérstaks saksóknara, sem sendi það áfram til Interpól. Þetta leiddi til þess að lögreglan gerði myndirnjar upptækar nokkrum tímum áður en uppboðið átti að fara fram. Ólafur Ingi segir að fölsuð verk eignuð Svavari hafi tekið að berast á markað upp úr 1990 og telur sig vita um á annað hundrað slíkar falsanir. Hann segir einfalt að sýna fram á verkin séu fölsuð. Ólafur Ingi furðar sig á að uppboðshúsið skuli hafa ætlað að selja verk sem augljóslega séu fölsuð. Bruun Rasmussen sé í alþjóðlegum samtökum uppboðshúsa og viðskiptavinirnir eigi að geta treyst því að faglega sé staðið að verki og saga verka sem fara í uppboð liggi fyrir.  Hér má hlusta á viðtal við Ólaf Inga þar sem hann útskýrir meðal annars hvers vegna hann telur það augljóst mál að verkin séu ekki eftir Svavar Guðnason.

 

Mynd með færslu
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi