Hvassviðri og páskahret næstu tvo daga

Flokkar: Innlent, Veður
Mynd: Rúv/Ásrún Brynja Ingvarsdóttir


  • Prenta
  • Senda frétt

Gera má ráð fyrir áframhaldandi páskahreti á vesturhluta landsins næstu tvo daga, segir Elín Jónasdóttir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Flest skíðasvæði landsins eru með skipulagða dagskrá sem ætti að höfða til fjölskyldna.

Elín segir að útlit sé fyrir þokkalegt veður um helgina; suðvestanátt og úrkomu á vesturhluta landsins en bjartviðri fyrir austan. Það sé helst seinni partinn á skírdag og föstudaginn langa sem útlit sé fyrir hret. Þeir sem ætli að vera á faraldsfæti ættu að leggja af stað í dag eða snemma á morgun.

„Það er ekkert útivistarveður á föstudag í þessu hvassviðri eða jafnvel stormi á landinu. Það gengur niður á föstudagskvöld og þá í sjálfu sér er áframhaldandi suðvestanátt á laugardag og einhver éljagangur á suðvesturhluta landsins, Vesturlandi og Vestfjörðum. Norðan við Hrútafjörðinn og á Austurlandi er minniháttar, ef einhver, ofankoma.“

Margir ætla að nota tækifærið og skella sér á skíði í páskafríinu.  Skíðasvæðið á Ísafirði verður opið alla páskana og fram á kvöld á skírdag. Þá verður rallímót á sleðum og snjóbrettamót svo dæmi séu tekin. Gautur Ívar Halldórsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segir að veðurspáin sé ágæt nema fyrir fimmtudagskvöld og föstudagsmorgun. 

Útlit er fyrir að veðrið verði skást á Austurlandi um páskana. Þar verður skíðasvæðið í Oddsskarði opið yfir hátíðirnar. Þar verður snjóbrettamót, keppt í stórsvigi og tírólatónlist spiluð í brekkunum fram eftir kvöld á laugardagskvöld.  

Fjölskyldustemmning verður á skíðasvæðinu í Tindastól í Skagafirði. Þar verður meðal annars boðið upp á þrautabraut fyrir börn á páskadag og er öllum þátttakendum lofað páskaeggi. 

Veðrið setti hinsvegar strik í reikningin á Tröllaskaga þar sem halda átti fyrsta fjallaskíðamóti Íslands um helgina. Því hefur verið frestað til þriðja maí vegna veðurs. 
 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku