Hvassahraun eini kosturinn utan Vatnsmýrar

11.09.2017 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Skýrsla um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar var kynnt í dag. Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri vann hana að beiðni Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Það hafa margar skýrslur verið gerðar um innanlandsflugið og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar en Jón lét gera þessa þar sem hann taldi að öryggishlutverkinu hefði ekki verið gefinn nægur gaumur í fyrri skýrslum.

Samkvæmt skýrslunni sinnir flugvöllurinn öryggishlutverki sínu afar vel. Ein meginniðurstaða Þorgeirs er að nauðsynlegt sé að hafa tvo flugvelli á Suðvesturlandi til að uppfylla bæði samfélagslegt og flugtæknilegt öryggi. „Við þurfum til dæmis varaflugvöll fyrir innanlandsflugið. Þetta var til dæmis tilgreint í skýrslu Helganefndarinnar. Það var ekki sagt nákvæmlega hvar hann yrði en það var tekið inn sem kostnaðarliður. Það er lögð áhersla á það, til dæmis í Noregi, að það sé ekki einn, ekki einu sinni tveir, þeir vilja helst hafa þrjá flugvelli fyrir Óslóarsvæðið, eins og er þar í dag.“

Þorgeir kemst einnig að þeirri niðurstöðu að ef flytja ætti flugvöllinn sé Hvassahraun vænlegasti kosturinn. Veðurfar sé ekki hagstætt á Hólmsheiði og umhverfið of viðkvæmt bæði á Bessastaðanesi og Lönguskerjum. Þó þurfi að gera frekari athuganir á Hvassahrauni, til dæmis á veðurfari. „En það eru líka ákveðnar hindranir og takmarkanir sem eru þarna. Það er líka spurning um ýmsa umhverfisþætti eins og vatnsvernd og það er spurning um burðargetu undir flugvellinum og fleira og fleira af þeim toga.“

Undirbúningur tæki yfir 10 ár

Slíkar rannsóknir tækju langan tíma, sem og undirbúningurinn almennt. Í skýrslunni kemur fram að það taki á annan áratug að flytja flugvöllinn eftir að ákveðið hefur verið hvar hann eigi að vera.

Þorgeir tekur dæmi frá Stokkhólmi. „Brommaflugvöllur hefur verið í mjög líkri stöðu og Reykjavíkurflugvöllur. Arlanda hefur náttúrulega verið þeirra stóri flugvöllur. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, og halda fast við hana, að það þurfi að halæda Brommaflugvelli opnum til ársins 2038 því það muni taka þá 20 ár að byggja nýja flugbraut á Arlandaflugvelli sem gerir þeim kleift að flytja þá umferð sem nú er á Arlanda yfir á Bromma. Það er svo einfalt.“

Þorgeir kemst líka að þeirri niðustöðu að óviðunandi sé að engin flugbraut í norðaustur-suðvesturstefnu sé á suðvesturhorninu. Flugbraut með þessari stefnu á Reykjavíkurflugvelli var sem kunnugt er lokað í fyrra. Þorgeir segir æskilegt að flugbraut með þessari stefnu á Keflavíkurflugvelli sem hefur verið lokuð frá árinu 1994 verði opnuð aftur. Hann bendir á úttekt öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna síðasta vetur sem leiddi í ljós að í 25 daga á ári var ekki hægt að lenda á Reykjavíkurflugvelli, í lengri eða skemmri tíma, þar sem þessa flugbraut vantaði.

„Við verðum bara að hafa það í huga að víð búum á einhverju vinasamasta svæði á Norður-Atlantshafi. Það er bara þannig.“

En nú hafa verið gerðar athuganir sem sýna það að nýtingarhlutfallið sé ásættanlegt þó að þessa braut vanti? „Hvað er ásættanlegt er teygjanlegt hugtak. Menn eru ekki sáttir við það þó að það sé ákveðið viðmið undir vissum kringumstæðum sem Alþjóðaflugmálastofnunin mæli með, sem er 95% nýting, þá er það langt í frá að það sé fyullnægjandi fyrir miðjuna í okkar innanlandsflugi, eða millilandaflugi ef því er að skipta. Við höfum í gegnum árin verið með raunnýtingarhlutfall, til dæmis á Reykjavíkurflugvelli, sem er upp undir 99% og jafnvel yfir. Það er bara þannig.“

„Galið að ákveða ekki hvert flugvöllurinn á að fara“

Jón Gunnarsson samgönguráðherra tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann myndi skipa starfshóp sem á að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Formaður hópsins er Hreinn Loftsson lögmaður en aðrir í hópnum eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði og Linda Gunnarsdóttir flugstjóri.

Jón segir það sláandi niðurstöðu hversu langan tíma tæki að flytja flugvöllinn og vandar borgaryfirvöldum sem ákváðu að flugvöllurinn færi árið tvö þúsund tuttugu og fjögur ekki kveðjurnar. „Miðstöð innanlandsflugs er í Vatnsmýrinni. Það að taka ákvörðun um að hún skuli flytja, áður en tekin er ákvörðun um hvert skuli flytja hana, að það hafi farið fram einhverjar rannsóknir sem styðja þá ákvörðun að hún skuli flutt eitthvað annað, er algjörlega galin í mínum huga. Það er verið að byrja á vitlausum enda. Þetta hef ég verið að gagnrýna. Ég hef sagt að völlurinn er í Vatnsmýrinni og hann verður í Vatnsmýri þangað til við tökum ákvörðun um að hann farið eitthvað annað. Og þar verðum við að byrja á réttum enda málsins.“

Jón segir að þær athuganir sem gera þarf á Hvassahrauni verði á verksviði nefndarinnar sem hann tilkynnti um í dag. „Það getur vel verið að þær taki sumar hverjar langan tíma en ég held að það sé mjög tímabært að hefja þær. Það er niðurstaða skýrsluhöfundar að Hvassahraunið sé í raun eini valkosturinn ef horft er til miðstöðvar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu ef það á að flytja hana úr Vatnsmýrinni. Ég mun nú samt sem áður leggja áherslu á það við starfshópinn að það verði skoðaðar breytingar á núverandi legu flugvallarins. Það er ekki auðvelt. Það blasir alveg við að umhverfissjónarmið og önnur rík sjónarmið gilda þar, en ég held samt sem áður að það sé einn af þeim valkostum sem við verðum að skoða. Við verðum að tikka í öll box þegar við tökum ákvörðun um hvort við eigum að flytja þessa starfsemi eitthvað annað hér á höfuðborgarsvæðinu.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi