Hvað næst í forkosningum vestanhafs?

Samsett mynd
 Mynd: EPA
Allt stefnir í að Hillary Clinton verði frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum í haust. Hjá Repúblikunum er staðan flóknari. Donald Trump er með forystu en gífurlega umdeildur innan flokks sem utan. Líklegt er þó að úrslit ráðist á næstu vikum.

Í forvali og forkosningum sækjast frambjóðendur eftir stuðningi kjörmanna. Eftir forval og forkosningar í gær, hefur Clinton nú tryggt sér 1001 kjörmann en Sanders 371. Alls þarf 2.383 kjörmenn til að fá útnefningu Demókrataflokksins. Clinton hefur því stuðning 42% þeirra kjörmanna sem þarf. Sanders hefur náð stuðningi 16%.

Hjá Repúblikönum er mjórra á mununum. Donald Trump hefur tryggt sér stuðnings 285 kjörmanna Ted Cruz 161 og Marco Rubio 87. 1.237 kjörmenn þarf til að fá úrnefningu Repúblikana.

Trump hefur því náð að tryggja sér 23% þeirra kjörmanna sem þarf til að fá útnefningu. Ted Cruz 13% og Marco Rubio 7%.

Áhrifaríkar forkosningar 15. mars

Í ríkjunum sem kosið hefur verið í fram til þessa er kjörmönnum úthlutað í samræmi við hlutfall atkvæða. 

Næstu daga verður fjöldi forvala og forkosninga í ríkjum sem skila tiltölulega fáum kjörmönnum. 15. mars verður hins vegar samtímis forval hjá báðum flokkum í fimm ríkjum. Þar á meðal í Flórída, Ohio og Norður-Karólínu, þremur tiltölulega fjölmennum ríkjum þar sem sigurvegarinn fær alla kjörmennina. 

Vinni Clinton með afgerandi sigra í forvali og forkosningum þá, hlýtur hún að teljast örugg með að verða forsetaframbjóðandi Demókrata. Mótframbjóðandi hennar, Bernie Sanders hefur vissulega safnað miklu fé undanfarið og hefur því efni á að auglýsa mikið. Þá hefur honum gengið vel í kappræðum, sem verða nokkrar næstu daga. Engu að síður eru litlar líkur taldar á að honum takist að bera sigurorð af Clinton. Richard Wolffe, sem skrifar um bandarísk stjórnmál í Guardian, segir að í raun séu litlar sem engar líkur á því að Sanders hljóti útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni hans.

Clinton virðist farin að beina spjótunum að Donald Trump, ef marka má sigurræðu hennar í Miami í gærkvöld. Þar svaraði hún slagorði Donalds Trumps – „Make America great again“ eða „Endurreisum stórveldið Bandaríkin“ – með því að segja að Bandaríkin hafi aldrei hætt að vera stórveldi. 

Trump sækir enn í sig veðrið

Erfiðara er að spá fyrir um atburðarásina hjá Repúblikönum. Þótt Donald Trump hafi unnið í meirihluta þeirra ríkja þar sem forkosningar og forvöl hafa farið fram til þessa, hefur hann ekki afgerandi forystu meðal frambjóðenda Repúblikana. Hann virðist þó enn vera að sækja í sig veðrið. 

Trump virðist ná að höfða til breiðs hóps fólks. CNN bendir á að hann nái góðum árangri hvort sem er meðal hvíts millistéttarfólks í norðausturhluta Bandaríkjanna, meðal kristinna hópa í Biblíubeltinu eða í Virginíu, þar sem mun fleiri kusu í forvali flokksins en áður.

Í sigurræðu sinni í Flórída sagði Trump að vegna framboðs hans hafi fylgjendum Repúblikanaflokksins fjölgað. Þá sagðist hann vera maður sem sameini fólk. Þegar forvali Repúblikana ljúki, ætli hann að einbeita sér að því að berjast gegn einni manneskju – Hillary Clinton.

Trump var kynntur til leiks af Chris Christie, ríkisstjóra í New Jersey. Christie, sem einnig hafði gefið kost á sér í forvalinu, dró framboð sitt til baka fyrir skemmstu og lýsti stuðningi við Trump. Þá hálfu klukkustund sem sigurræðan stóð yfir, stóð Christie svipbrigðalítill í bakgrunninum. Þann þótti afar vandræðalegur og hefur óspart verið gert grín að honum, meðal annars á Twitter.

Óttast klofning í Repúblikanaflokknum

Mikil andstaða er engu að síður við framboð Trump innan Repúblikanaflokksins. New York Times segir merki um klofning í flokknum.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ben Sasse frá Nebraska lýsti því formlega yfir á mánudag að hann ætli ekki að styðja Donald Trump, verði hann forsetaframbjóðandi Repúblikana. Sasse er fyrsti þungavigtarmaðurinn úr Repúblikanaflokknum sem afneitar Trump með svo afgerandi hætti en hann er gjarnan tengdur Teboðinu svokallaða.

Ted Cruz leggur nú áherslu á að hann sé eini frambjóðandi Repúblikana sem gæti borið sigurorð af Trump. Í ræðu í Texas, heimaríki sínu, þar sem hann vann stóran sigur, sagði Cruz að það hefði hryllilegar afleiðingar fyrir Repúblikanaflokkinn ef Trump verði forsetaframbjóðandi flokksins. Þá hvatti Cruz aðra frambjóðendur til þess að íhuga hvort rétt væri að þeir drægju sig í hlé, til að hægt yrði að stöðva Trump.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV