Húsið gjörónýtt eftir eldsvoða á Stokkseyri

16.07.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu  -  Facebook
Kona var flutt á slysadeild með reykeitrun eftir að eldur kviknaði í húsinu hennar á Stokkseyri í nótt, en hún komst út úr húsinu af sjálfsdáðum. Húsið er gjörónýtt, en það var aldelda þegar slökkvilið kom á vettvang. Þegar slökkvilið Árnessýslu frá Hveragerði og Selfossi mætti á vettvang í morgun stóðu eldtungur út um dyr og glugga hússins.

„Eldur stóð út um útidyr og einn glugga sem sýndi þá að húsið var alelda að innan,“ segir Haukur Grönli, aðstoðarslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sem var við slökkvistörf á húsinu.

Auk konunnar sem var inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði voru þar tveir hundar sem komust líka út af sjálfsdáðum.

Einangrað með heyi

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, segir Haukur, og lauk slökkvistarfi á tíunda tímanum í morgun. Haukur segir að nú sé verið að ganga úr skugga um að hvergi leynist glóð í brunarústunum, en húsið var sumstaðar einangrað með heyi. Slökkviliðsmenn verði því við vinnu í húsinu fram eftir degi.

„Það er erfitt að eigi við þessa elda í svona gömlum húsum af því við þurfum að rífa svo mikið. Við þurfum að leita af glóðinni til að vera fullvissir um að hafa slökkt allt.“

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á eldsupptökum, samkvæmt því er kemur fram í Facebook-færslu Brunavarna Árnessýslu.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV