Húsdýragarðurinn fær garðskála í stað tjalds

25.02.2016 - 23:54
Mynd með færslu
Selirnir í Húsdýragarðinum.  Mynd: Facebooksíða Húsdýragarðsin
Húsdýragarðurinn fær bjartan garðskála í stað veitingatjalds sem eyðilagðist í óveðri í nóvember á síðasta ári. Áætlaður kostnaður við nýja skálann er allt að 25 milljónir. Dúkurinn á veitingatjaldinu rifnaði í tætlur í veðurofsanum og álgrind sem hélt því uppi er snúin, brotin og beygluð.

Þetta kemur fram í bréfi skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds sem tekið var fyrir á fundi borgarráðs í dag.

Þar segir að áætlaður kostnaður við lagfæringar á tjaldinu séu um 13 milljónir en það sé samdóma álit allra starfsmanna að „það borgi sig ekki að eyða svo miklum peningum í enn eitt tjaldið sem yrði þá þriðja endurnýjunin.“

Skrifstofustjórinn bendir enn fremur á að viðhaldskostnaður við tjaldið hafi verið orðinn verulegur og þá hafi reynst erfitt að halda því hreinu „þar sem vatn, lauf og jarðvegur eiga greiða í tjaldið.“

Tjaldið hefur engu að síður reynst starfsmönnum garðsins vel - hefur meðal annars verið notað undir mötuneyti fyrir starfsmenn og námskeið fyrir börn. 

Lagt er til að í staðinn fyrir tjaldið  komi bjartur garðskáli sem verði annað hvort sólstofa eða gróðurhús. Skrifstofustjórinn telur hugsanlega best að forsteypa sökkulinn þannig að hægt yrði að hífa þá burt ef áætlanir rætast um að hús rísi þarna síðar. „Slíkur skáli myndi auðvelda starfsmönnum að þjóna gestum þar sem starfsemin væri ekki eins háð veðri og vindum.“  

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV