Hurð fauk af í heilu lagi og lenti í sundlaug

16.02.2016 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hulda Guðbjörnsdót
Á fimmta tug björgunarsveitarmanna hafa tekið þátt í aðgerðum tengdum óveðrinu frá því í gærkvöld. Rennihurð við sundlaugina í Bolungarvík fauk af í heilu lagi og lenti í lauginni. Fámennt var í morgunsundinu og engin slys urðu á fólki.

Það er einnig mjög hvasst á Vestfjörðum. Lögreglan á Vestfjörðum biður íbúa að vera ekki ferðinni að nauðsynjalausu þar til veðrið gengur niður. Vegagerðin hefur gefið út viðvörun vegna snjóflóða í Súðavíkurhlíð en vegurinn er ekki lokaður. Búist er við að það versta sé yfirstaðið en ekki er búist við að það lægi fyrr en síðdegis. Landgangur fauk við flotbryggju í höfninni á Suðureyri en ekkert verður gert í því fyrr en veður lægir. Rennihurð við Sundlaugina í Bolungarvík fauk af í heilu lagi og lenti í lauginni. Engin slys urðu á fólki en björgunarsveitin Ernir var kölluð út og lokaði gatinu en sundlaugin verður lokuð næstu daga.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hulda Guðbjörnsdót

Gunnar Hallsson er forstöðumaður Sundlaugarinnar í Bolungarvík. „Um 20 mínútum fyrir átta í morgun gerði mjög sterka suðvestan vindhviðu sem að orsakaði það að rennihurð á sundlaugarsal sem liggur út í sundlaugargarð tók af í heilu lagi og sveif með góðum boga út á sundlaugarbakka og út í sundlaug með miklum látum og brambolti. Það höfðu fáir gestir sótt til okkar vegna veðurs, það var þó einn að synda í lauginni þegar þetta gerðist en það fór allt vel. Það má segja að hann hafi verið réttu megin í lauginni,“ segir Gunnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hulda Guðbjörnsdót

Gunnar segir að það sé töluvert af glerbrotum í lauginni og því þurfi að tæma hana. „Við tökum enga áhættu með það. Það tekur okkur tvo til þrjá daga að tæma laugina, þrífa hana og setja í hana aftur. Við reynum að láta það ganga hratt og vel og vonumst til þess að geta opnað aftur hjá okkur Musteri vatns og vellíðunar hér í Bolungarvík fyrir helgi.“