Hundruð þúsunda fögnuðu degi Katalóníu

12.09.2017 - 04:27
epa06198634 A handout photo made available by Catalan National Assembly (ANC) shows thousands of people carrying giant Catalan Flag and a banner reading 'Referendum is Democracy' as they gather during the National Day of Catalonia (Diada)
 Mynd: EPA-EFE  -  CATALAN NATIONAL ASSEMBLY
Hundruð þúsunda Katalóna söfnuðust saman í héraðshöfuðborginni Barcelona í gær til að fagna þjóðhátíðardegi Katalóníu og lýsa stuðningi sínum við boðaða atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Gengið var fylktu liði um breiðstræti borgarinnar með fána og kröfuspjöld á lofti en gangan hófst á mínútu þögn til minningar um fórnarlömb hryðjuverkanna sem framin voru í héraðinu í ágúst.

Stjórnlagadómstóll Spánar úrskurðaði nýlega að boðuð atkvæðagreiðsla um aðskilnað og sjálfstæði Katalóníu sé ólögleg. Stjórn Katalóníu, sem er fylgjandi sjálfstæði, ætlar að efna til kosninganna engu að síður, hinn 1. október næstkomandi og héraðsþingið hefur samþykkt lög um aðskilnað, ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar fellur þeim megin.

Síðast þegar kosið var um þetta mál, 2014, vildu ríflega 80 prósent þeirra sem þátt tóku sjálfstæða Katalóníu. Þau úrslit gefa þó ranga mynd því sú atkvæðagreiðsla hafði líka verið úrskurðuð ólögleg af stjórnlagadómstólnum og andstæðingar aðskilnaðar sniðgengu kosningarnar upp til hópa. Skoðanakannanir sýna að naumur meirihluti Katalóna kýs að Katalónía verði áfram hérað á Spáni fremur en sjálfstætt ríki. 

Lögregla í Barcelona áætlar að allt að milljón manns hafi tekið þátt í kröfugöngunum og hátíðarhöldunum í borginni í gær. Starfsmaður hjá ríkislögreglustjóraembættinu áætlaði aftur á móti að þátttakendur hefðu verið um 350.000.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV