Hundrað ára afmælishátíð Leikfélags Akureyrar

19.04.2017 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: MAK  -  Menningarfélag Akureyrar
Leikfélag Akureyrar (LA) fagnar hundrað ára afmælinu sínu í dag, 19. apríl. Nú er liðin öld síðan LA var stofnað árið 1917 og á það að baki hundruð uppsetninga af innlendum og erlendum leikverkum. Hátíðarhöld fara fram í Samkomuhúsinu í kvöld í tilefni dagsins.

Eina atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni

Leiksýningar hófust fyrst í Samkomuhúsinu á Akureyri árið 1907 og áratug síðar var Leikfélag Akureyrar formlega stofnað. Lengi vel var félagið eitt fjölmennasta og vinsælasta áhugamannaleikhús landsins, en árið 1973 var byrjað að fastráða leikara og varð LA formlega atvinnuleikfélag nokkrum árum síðar.

Það er nú eina starfandi atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins. Nú starfar félagið undir hatti Menningarfélags Akureyrar (MAk), ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarfélagsins Hofs. Það er rekið með stuðningi frá Akureyrarbæ með þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Samkomuhúsið kostaði 28.500 krónur í byggingu

Leiksýningar LA eru nú settar upp í Hofi og Samkomuhúsinu, sem hýsir jafnframt aðra hluta starfseminnar eins og Leiklistarskóla LA, nemendasýningar, námskeið og almennar leiksýningar. Samkomuhúsið tekur 210 manns í sæti og er eitt af helstu kennileitum Akureyrarbæjar.

Stúkurnar Trúföst og Ísafold létu byggja húsið árið 1906 og var húsið vígt á Þorláksmessu. Á heimasíðu MAK segir að byggingartíminn hafi tekið ótrúlega skamman tíma og allt gert með handverkfærum. Með húsgögnum kostaði húsið fullsmíðað 28.500 krónur. Yfirsmiðir voru þeir Guðmundur Björnsson og Guðmundur Ólafsson frá Steinhóli í Skagafjarðarsýslu. Bærinn leigði fyrst um sinn neðstu hæð hússins fyrir lestrarsal, bókasafn og bæjarstjórnarfundi, en keypti síðar húsið af templurum árið 1917.

Samkomuhús Akureyrarbæjar, þar sem Leikfélag Akureyrar hefur aðsetur.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Fjölbreytt starfsemi

Leiklistarsvið MAk sviðsetur þrjár til sjö leiksýningar á eigin vegum og í samstarfi við aðra auk ótal styttri sýninga og smærri viðburða. Fjöldi nýrra íslenskra verka hefur verið frumsýndur hjá LA og listamenn leiklistarsviðs MAk vinna reglulega með listamönnum sem einbeita sér að frumsköpun, er fram kemur á heimasíðu MAk. Fjöldi fastráðinna leikara hefur verið nokkuð breytilegur í gegn um tíðina en leikhópurinn hefur talið á bilinu fjóra til ellefu leikara.

Erfiður rekstur eftir hrun

Rekstur leikfélagsins gekk mjög erfiðlega eftir efnahagshrunið og árið 2011 kom út skýrsla sem var unnin fyrir bæjarráð Akureyrar vegna rekstrarvandans og ljóst var að félagið hafði tapað um 70 milljónum króna síðasta rekstrarár. Í skýrslunni var sýnt fram á að fyrrverandi framkvæmdastjóri hafði leynt samstarfsfólki og stjórn LA upplýsingum um fjárhag félagsins og þar af leiðandi hafi of seint verið gripið í taumana. Einnig kom fram að Akureyrarbær hafði ekki sinnt eftirliti með rekstrinum nægilega vel. Árið 2015 rann LA inn í MAk og samþykkti bæjarráð þá að veita MAk greiðslufrest á láni sem bærinn veitti LA árið 2012 þegar rekstrarerfiðleikarnir voru hvað mestir, um 55 milljónir króna, til 1. janúar næstkomandi.

Heimildaþáttur í bígerð

Ritið Saga leiklistar á Akureyri, eftir Harald Sigurðsson, var gefið út að tilefni 75 ára afmælis félagsins árið 1993, en Sigurgeir Guðjónsson sagnfræðingur var fenginn til að rita sögu greinarinnar á Akureyri síðustu 25 ár að tilefni hundrað ára afmælis LA. Árið 1993 var sett upp sérstök hátíðarsýning á Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness. Á aldarafmælinu var ákveðið að setja upp fjölda viðburða sem dreifast yfir allt árið og í kvöld verður sérstök hátíðardagskrá í Samkomuhúsinu þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp og fjöldi listamanna stígur á stokk. Þá er RÚV, í samvinnu við Flugu hugmyndahús, að framleiða heimildaþátt um sögu Leikfélags Akureyrar að tilefni hundrað ára afmælisins.

Stefnan tekin á framtíðina

Jón Páll Eyjólfsson tók við sem leikhússtjóri í desember 2014 og segir hann í pistli í tilefni dagsins að vert sé að taka stefnuna inn í framtíðina.

„Aðgengi, mennska, hlutdeild, fjölbreytileiki, forvitni og gjafmildi eru vörður sem Leikfélagið vill hafa að að leiðarljósi í þeirra víðasta skilningi í allri sinni starfsemi í framtíðinni. Það vill framleiða metnaðarfulla dagskrá sem hefur hefur að leiðarljósi nýsköpun í sviðslistum og þá skyldu að færa sígild skáldverk nær áhorfendum í dag og þannig skapa ný samfélagsleg verðmæti. Leikfélagið vill rækta hæfileika ungs listafólks í frumsköpun í sviðslistum og vera gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar geta ræst. Rödd ungs fólks er mikilvæg og ungu fólki skal gefið tækifæri til að eiga stefnumót við áhorfendur. Spurningum og rannsóknum borgaranna er gefin snertiflötur við sitt samfélag í verkefnum Leikfélags Akureyrar,” segir Jón Páll. Í stjórn LA sitja nú Oddur Bjarni Þorkelsson formaður, Birna Pétursdóttir varaformaður og Sólveig Elín Þórhallsdóttir ritari. Sunna Borg leikkona er varamaður í stjórn og Arnheiður Jóhannsdóttir er fulltrúi LA í stjórn MAk.

Hér má sjá sögu LA í myndum af heimasíðu MAk.

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV