Hundar í kapphlaupi við dauðann

18.06.2017 - 11:14
Veturinn 1925 ógnaði barnaveikifaraldur afskekktum bæ í norðvestanverðu Alaska, og eina leiðin til að koma lífsnauðsynlegum lyfjum til bæjarins var með hundasleða. Á sex dögum unnu nokkrir hundar og menn ótrúlegt afrek og fluttu lyfin meira en þúsund kílómetra torfæra leið í illviðri og nístingskulda.

Í ljósi sögunnar fjallaði um hundasleðaboðhlaupið til Nome í janúar og febrúar 1925. Heyra má allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Afskekktur og gleymdur gullgrafarabær

Bærinn Nome spratt fram á gullæðisárunum í byrjun tuttugustu aldar og var um hríð fjölmennasti bær Alaska. En þegar gullið var uppurið hurfu flestir og veturinn 1924-1925 bjuggu bara um 1500 manns í Nome.

Þeir reiddu sig á einn bæjarlækni sem uppgötvaði það sér til hryllings skömmu eftir áramótin 1925, að barnaveikifaraldur var kominn upp í bænum. Og birgðir hans af mótefni við veikinni voru bæði ónægar og útrunnar. 

Ekki var hægt að flytja meira mótefni til bæjarins þar sem engin skip komust þangað yfir vetrartímann og flugleiðin var sömuleiðis ómöguleg. 

Hundar til bjargar

Í raun var leiðin til að koma mótefninu til bæjarins að notast við samgöngumáta sem Alaskamenn höfðu þá reitt sig á öldum saman: hundasleða.

En leiðin frá næstu járnbrautarstöð til Nome var engu að síður meira en 1000 kílómetrar og afar illfær. Sér í lagi að vetri, og veturinn 1924-1925 var einhver sá kaldasti í Alaska í áratugi. 

Ferð þessi tók hundasleða vanalega mánuð eða meira en nú skipti hver dagur sköpum. Ákveðið var að safna saman um tuttugu færum hundasleðaeklum og láta þá hlaupa í einskonar boðhlaupi til Nome með dýrmætt og viðkvæmt mótefnið. 

Hugrakkir hundar

Boðhlaupið, í janúar og febrúar 1925, fangaði athygli heimsbyggðarinnar.

Enda lögðu bæði hugrakkir menn og hundar sig í lífshættu við að koma lyfjunum til Nome við verstu mögulegu aðstæður — og komust oft í hann krappann.

Á endanum voru það svo ekki síst hundarnir sem voru hylltir sem hetjur.

Hlustið á alla söguna um sleðaboðhlaupið til Nome í spilaranum hér að ofan. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi