HSU endurskoðar opnunartíma á Hvolsvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur boðað fulltrúa sveitarstjórna í Rangárvallasýslu til funda um endurskoðun opnunartíma heilsugæslustöðva í sýslunni. Í tilkynningu segir forstjórinn áríðandi að svara kalli sveitarstjórnar Rangárþings eystra á íbúafundi 11. janúar. Mikilvægt sé að skoða möguleika í boði miðað við það fjármagn sem veitt sé til þjónustunnar.

Í tilkynningu Herdísar Gunnarsdóttur forstjóra til íbúa Rangárþings segir að í kjölfar íbúafundarins hafi nú verið ákveðið að flýta endurskoðun á opnunartíma. Það hafi átt að gera í vor, en nú verði miðað við næstu mánaðamót. Fundir með sveitarstjórnarmönnum verði 21. og 28. þessa mánaðar og „skal endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi á opnunartíma liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2016“. Í tilkynningunni segir einnig að áður hafi komið fram að ekki standi til að loka heilsugæslustöðvum á Hellu og Hvolsvelli.

Heilsugæslustöðin á Hvolsvelli hefur verið opin þrjá daga í viku í vetur, í stað fimm áður. Það hefur valdið mikilli óánægju í Rangárþingi eystra. Óánægjan kom berlega í ljós þegar nær fjórðungur íbúa sveitarfélagsins troðfyllti félagsheimili Hvol á fundinum. Heilsugæslustöðin á Hellu er opin fimm daga í viku. Þessum stöðvum er svo lokað til skiptis frá því í júni til 1. september til hagræðingar. Í haust bar hins vegar svo til að ekki var opnað á Hvolsvelli fyrr en 16. nóvember.

Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að skoða hvaða möguleikar séu í boði í útfærslu á þjónustunni, miðað við það fjármagn sem veitt sé til hennar. Á íbúafundinum 11. janúar kom fram að því fé sem sparaðist á skerðingu opnunartímans á Hvolsvelli væri varið til heimahjúkrunar.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV