Hrun í kauphöllinni í Moskvu

15.01.2016 - 12:20
epa05097119 An information board displays currency exchange rates in Moscow, Russia, 11 January 2016. Euro and US dollar resumed their growth up from the previous exchange rates. The euro soared to 82.8 rubles and dollar soared to 75.95 rubles.  EPA/MAXIM
 Mynd: EPA
Veruleg verðlækkun var á gengi hlutabréfa í kauphöllinni í Moskvu í morgun og laust fyrir hádegi hafði RTS-vísitalan lækkað um rétt rúmlega fimm prósent. Þá lækkaði gengi rúblunnar gagnvart dollar og evru og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2014.

Lágt olíuverð og refsiaðgerðir Vesturveldanna vegna Úkraínudeilunnar hafa bitnað harkalega á rússneskum efnahag og samkvæmt opinberum tölum varð samdráttur upp á 3,7 prósent fyrstu tíu mánuði nýliðins árs. 

Rússneskar fréttastofur höfðu eftir Dimitri Medvedev forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun að sveiflur á olíuverði undanfarnar vikur og ekki síst síðustu daga gætu sett fjárlög ríkisins í uppnám.

Vladimir Pútín forseti sagði í síðasta mánuði að fjárlög fyrir árið 2016 hefðu verið miðuð við að meðalverð olíu yrði 50 dollarar á tunnu, en viðurkenndi að það væri bjartsýni í ljósi þróunar á markaði.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV