Hrelliklám ekki nýtt af nálinni

12.02.2016 - 15:22
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, nemi í félags- og kynjafræði, segir að um leið og myndavélin kom til sögunnar, hafi hrelliklámið fylgt með. „Þetta er mun stærra en flestir gera sér grein fyrir...það eru börn alveg niður í tíu ára sem lenda í þessu,“ segir Vigdís Fríða. Hún er höfundur nýrrar skýrslu um hrelliklám.

Engin lög á Íslandi um hrelliklám

Hrelliklám er dreifing kynferðislegra mynda, án samþykkis þess sem er á myndinni. Hugtakið „hefndarklám“ hefur hingað til verið notað um fyrirbærið, og hefur það verið gagnrýnt fyrir að vera of þröngt og jafnvel villandi og því hafa ýmsir notast við önnur hugtök á borð við „kynferðislegt netáreiti“, „stafrænt ofbeldi“ og „hrelliklám“.

Engin lög eru á Íslandi um hrelliklám, en notast hefur við eldri lög í dómsmálum um málaflokkinn, en þau duga ekki til. Frumvarp var lagt fram árið 2014 og aftur óbreytt 2015, en fjöldi athugasemda kom við frumvarpið og nú ný skýrsla sem unnin var af Vigdísi í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands, með nýsköpunarstyrk frá Rannís.

Netið jók dreifingu hrellikláms

Eins og gefur að skilja jókst dreifing hrellikláms verulega með tilkomu netsins og alls kyns samfélagsmiðla, líkt og Facebook, Twitter og fleiri slíkra. 

Vigdís Fríða segir að herferðin Frelsun geirvörtunnar hafi opnað fyrir aukna umræðu um hrelliklám. „Við megum ekki vanmeta það sem að [Frelsun geirvörtunnar] gerði fyrir okkur. Fólk er meðvitaðra um hrelliklám.“

Rætt var við Vigdísi Fríðu Þorvaldsdóttur í Mannlega þættinum.