Hráolíuverð ekki lægra í tólf ár

20.01.2016 - 06:24
Erlent · Asía · Viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Verð á hráolíutunnu fór niður fyrir 28 Bandaríkjadali á Asíumarkaði í nótt og hefur ekki verið lægra í tólf ár. Sérfræðingar segja spár um offramboð á olíu vera ástæðu lækkunarinnar. Líkur séu á því að olíuverð eigi eftir að lækka enn frekar. Hlutabréf hríðféllu í Asíu við tíðindin.

Lægst fór olíutunnan niður í 27,92 dali en fór aftur yfir 28 dalina upp úr klukkan tvö í nótt. Síðast fór tunnan undir 28 dali í september 2003. Alþjóða orkustofnunin, IEA, varaði við því í gær að olíumarkaðir gætu drukknað í offramboði við opnun viðskiptasamninga við Íran. Því geti verð á hráolíu haldið áfram að lækka.

Í kjölfarið varð mikil lækkun á hlutabréfamörkuðum í Asíu. Við lokun í Japan hafði Nikkei vísitalan fallið um 3,7 prósent. Í Hong Kong lækkaði vísitalan um nærri 3,8 prósent og hefur hún ekki verið lægri í tæp fjögur ár. Sjanghæ vísitalan í Kína lækkaði um tæp 1,4 prósent fram að hádegishléi.