Houellebecq sér snöggu blettina á okkur

18.02.2016 - 12:21
Fyrir rúmu ári, 7.janúar 2015, réðust vopnaðir menn inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París og myrtu 12 manns. Á forsíðu blaðsins var skopmynd af Michel Houellebecq, sem sendi frá sér skáldsögu þennan sama dag. Sögusviðið var Frakkland eftir að múslimar höfðu náð þar völdum í lýðræðislegum kosningum. Þessi bók er nú komin út á íslensku og heitir „Undirgefni“. Þýðandinn; Friðrik Rafnsson, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

Friðrik Rafnsson vitnaði til nýlegrar greinar í Le Monde, þar sem franski rithöfundurinn Emmanuel Carrère ber lof á þessa bók Houellebecq, „Undirgefni“, og líkir henni við áhrifarík tímamótaverk Aldous Huxley, „Brave New World“, og „1984“ eftir George Orwell. „Þetta er ákveðin tegund af framtíðarsögum, með atburðum sem gerast í náinni framtíð - og samtíminn er skoðaður í ljósi þessarar nánu framtíðar“, segir Friðrik. Í grein sinni segir Carrère að í samanburði við þessar tvær klassísku bækur sé „Undirgefni“ listrænt áhugaverðari.

Margir hafa með ósanngjörnum hætti haldið því fram að Houellebecq ýti undir hatursfulla umræðu um Íslam og múslima. Sjálfur hafnar hann ásökunum um að vera haldinn Íslamófóbíu. Sjálf talar „Undirgefni“ sínu máli. Þeir sem þar verða helst fyrir beittum penna Houellebecq og ádeilu eru hinir lötu og velsældarlegu Vesturlandabúar, sem búa við staðnað eða vanvirkt lýðræðiskerfi. Friðrik Rafnsson segir að fyrir þá sem hafa áhuga á þróun samfélaga sé „Undirgefni“ mjög áhugaverð: „Evrópska samfélagið, eins og við þekkjum það, er að ganga í gegnum ákveðin hamskipti. Það er mikill órói“. Á slíkum tímum, segir hann, spyrji fólk sig hvort það eigi að halla sér að trúarbrögðum, og þá hvaða trúarbrögðum. „Hvernig við getum lifað saman í þessum fjölmenningarheimi. Það er ákveðin tvískipting sem við verðum vitni að í Evrópu, og hann er að hugleiða þetta allt saman með sínum ótrúlega skörpu augum, röntgenaugum, eiginlega“.  Houellebecq varpar því fram til umhugsunar hvort gróin og öflug menningarsamfélög og stórveldi stytti sér aldur – gangi hreinlega frá sér. Hann horfir yfir Evrópu nútímans og veltir fyrir sér líkindum við Rómarveldi. „Að Evrópa sem við þekkjum sé að hnigna. Það gildismat sem við þekkjum: frelsi, jafnrétti, bræðralag, og ákveðin framfarahyggja. Þessu höfum við tekið sem gefnu en er kannski núna komið í ákveðið öngstræti“, segir Friðrik.  Houellebecq nýtur þess augljóslega að rassskella frjálslynda og vinstrisinnaða menntamenn og ögra feministum. Margir eru líka pirraðir út í hann og segja þennan skrattakoll fordómafullan. Friðrik segir að sjálfur sé Houellebecq tvær persónur. Annars vegar þessi fullyrðingasama og ögrandi fjölmiðlapersóna, og hinsvegar sé hann ljúfur, ljóngáfaður og skemmtilegur maður í viðkynningu. Þeirri persónu kynntist þýðandinn þegar Houellebecq kom í heimsókn til Íslands. „Hann er áhorfandi. Mjög beittur penni, mikill stílisti, sem sér snöggu blettina á okkur – og segir það bara hreint út. En hann er ekki að ögra með bókunum sínum. Það gerir hann í viðtölum“.

Aðalsögupersónan í „Undirgefni“ er François, miðaldra bókmenntafræðingur og háskólakennari. Hann er gáfaður og kaldhæðinn einfari, þunglyndur lífsnautnamaður, fordómafullur og húðlatur. Þessa persónu þekkja aðdáendur Houellebecq og hún dregur dám af höfundi sínum. „En einfarinn er frjáls og horfir á okkur eins og mauraþúfu“, segir Friðrik Rafnsson, þýðandi. Háskólakennarinn François þarf að ákveða hvort hann á að þiggja rausnarleg eftirlaun frá Sorbonne-háskóla eftir að Saudi-Arabar hafa náð tökum á honum – eða, gangast Íslamstrú á hönd, fá rausnarleg kennaralaun - og leyfi til að eignast allt að fjórar eiginkonur. „Þetta er líka um það hvernig fólk bjargar sér þegar samfélagið fer allt á hvolf“. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi