Hótel á Siglufirði mun kosta milljarð

21.02.2013 - 20:26
Mynd með færslu
Hafnar eru framkvæmdir við þrjú þúsund fermetra hótel við smábátahöfnina á Siglufirði. Áætlaður kostnaður er um einn milljarður króna.

Bygging hótels á Siglufirði hefur verið í undirbúningi lengi og er hluti af frekari uppbyggingu við höfnina á vegum Rauðku, félags í veitingarekstri og ferðaþjónustu á Siglufirði. Og það verður ekki grafið fyrir þessu hóteli, því byggingin rís á uppfyllingu í smábátahöfninni og mikið efni verður því flutt í höfnina næstu vikur.

"Þegar því er lokið þá á að taka um eitt ár fyrir efnið að síga nóg áður en við getum byrjað að byggja," segir Sigríður María Róbertsdóttir framkvæmdastjóri Rauðku.

Hótelið verður þannig hluti af höfninni og hannað til að gestirnir geti notið stemmningarinnar við sjóinn. Byggingin verður um 3000 fermetrar og gert er ráð fyrir 64 herbergjum. Og þetta kostar sitt, gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við framkvæmdina verði rúmur milljarður.

Hús sem hafa verið endurgerð eða byggð ný á hafnarsvæðinu eru dálítið í anda gömlu síldaráranna. Gamli byggingarstíllinn fær að halda sér og þannig verður nýja hótelið.

"Við munum halda okkur í þessum stíl, einfaldlega af því að Siglufjörður er gamall síldarbær og við búum yfir sterkri sögu," segir Sigríður. Hún vonast til að hótelið opni vorið 2015.