Hóta kjarnorkuárás ef heræfingar hefjast

07.03.2016 - 01:34
In this image made from video, the portrait of late North Korea's founder Kim Il Sung is held atop during parade marking the 70th anniversary of the country's ruling party in Pyongyang, Saturday, Oct. 10, 2015.  Goose-stepping North Korean
 Mynd: AP  -  KRT via AP Video
Norður-kóresk stjórnvöld hóta kjarnorkuárás á Suður-Kóreu og Bandaríkin láti þjóðirnar verða af því að hefja sameiginlegar heræfingar á morgun. Í yfirlýsingu norður-kóreska hersins sem lesin var í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu í kvöld er árásin sögð fyrirbyggjandi árás réttlætisins.

Í vikunni skipaði Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, her sínum að gera kjarnavopnabúr sitt tilbúið til árásar á hverri stundu. Kim er verulega ósáttur við nýsamþykktar hertar refsiaðgerðir af hálfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorku- og flugskeytatilrauna Norður-Kóreu. 

Vitað er að stjórnvöld í Pyongyang hafa yfir að ráða kjarnaoddum en að sögn AFP fréttastofunnar greinir sérfræðinga á um hvort þeir hafi burði til þess að koma þeim fyrir á flugskeyti.

Í yfirlýsingu norður-kóreska hersins sagði að kjarnorkuárás myndi sýna ógnvöldum ríkisins hernaðarmátt Norður-Kóreu. Ekki yrði aðeins gerð árás á Kóreuskaga heldur einnig á bandarískar herstöðvar á meginlandi Asíu við Kyrrahafsströndina. Herstöðvar óvinanna munu hverfa í eldhaf og ösku á örskotstundu ákveði herinn að styðja á hnappana sem ræsa kjarnavopnin, segir í yfirlýsingunni.

Slíkar hótanir hafa áður borist af hendi norður-kóreskra stjórnvalda þegar spenna myndast á milli Kóreuríkjanna. Hingað til hafa ríkin náð að semja um frið í það minnsta um stundarsakir.