Hóta kjarnorkuárás á Washingtonborg

26.03.2016 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Ráðamenn í Norður-Kóreu birtu í dag fjögurra mínútna myndband, sem kallast Síðasta tækifærið. Þar er farið yfir samskipti þjóðarinnar við Bandaríkin á undanförnum árum.

Í enda myndbandsins sést kjarnorkuflaug lenda á Washingtonborg, framan við minnismerkið um Lincoln forseta. Og þegar þinghúsið á Capitolhæð springur í loft upp birtast skilaboð þar sem segir að ef bandarísku heimsvaldasinnarnir ráðist svo mikið sem þumlung inn á norður-kóreskt yfirráðasvæði verði því svarað með kjarnorkuárás.

Ráðamenn í Pyongyang hafa hvesst mjög róminn undanfarnar vikur og nánast daglega hótað árásum á Suður-Kóreu og Bandaríkin í mótmælaskyni við heræfingar þeirra.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV