Holtavörðuheiði lokuð vegna veðurs

21.02.2016 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Lokað er um Siglufjarðarveg og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóða. Einnig er lokað um Mosfellsheiði og Holtavörðuheiði vegna veðurs. Hálka og óveður er á Kjalarnesi og lokað er um Mosfellsheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Sandskeiði en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum en annars er hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi en þó er snjóþekja sumstaðar í uppsveitum.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi en þó er lokað um Holtavörðuheiði og ófært er um Bröttubrekku, unnið er að hreinsun. Á Snæfellsnesi er ófært yfir Fróðárheiði og fyrir nes en þæfingsfærð er á Vatnaleið og unnið er að hreinsun, þá er hálka og óveður á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á  Vestfjörðum er ófært um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls. Snjóþekja og skafrenningur er á Hálfdán og Mikladal en þungfært á Kleifaheiði. Lokað er um Súðavíkurhlíð.

Snjóþekja eða þæfingur ásamt skafrenning eða snjókomu er á flestum leiðum á Norðurlandi. Ófært er á Vatnsskarði en unnið er að opnun, einnig er ófært um Þverárfjall og þæfingsfærð er nokkuð víða norðaustantil eins og á Öxnadalsheiði, milli Dalvíkur og Akureyrar, Víkurskarði og víðar.

Á Austurlandi er ófært um Möðrudalsöræfi og þungfært í Jökuldal, þá er þungfært á Fjarðarheiði þar sem einnig er stórhríð. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum og sumstaðar skafrenningur. Autt er að mestu með suðaustur ströndinni en þó hálkublettir á köflum.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV