Hollywood-stjörnum boðið til Ísraels

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ísraelsstjórn ætlar að gefa öllum Hollywood-stjörnum sem vinna til Óskarsverðlauna í ár lúxus ferð til Ísraels. Talsmenn Palestínumanna og hreyfingar um að sniðganga ísraelskar vörur skora á stjörnurnar að þiggja ekki boðsferðirnar.

Ráðherra ferðamála í Ísrael býður 26 Hollywood stjörnum þar á meðal Jennifer Lawrence, Leonardo DiCaprio og Matt Damon tíu daga Ísraelsferð sem metin er á 55.000 dollara hver. 

Omar Barghouti, baráttumaður fyrir réttindum Palestínumanna, segir að Ísraelar reyni með þessu að hressa upp á aðþrengdan ferðamannaiðnað og  rjúfa vaxandi einangrun á alþjóðavettvangi frekar en að breyta stefnu sinni. Ein kvikmyndanna sem tilnefnd sé til Óskarsverðlauna heiti "Hungur leikarnir". Hungur sé enginn leikur á hernumdu svæðunum Palestínumanna; á Gaza líði íbúarnir raunverulegt hungur.

Ísraelska dagblaðið Haaretz segir að Bernie Sanders sé fyrstur gyðinga til að vinna forval foretakosninga í Bandaríkjunum. Sanders, sem er af pólskum gyðingaættum, njóti hins vegar ekki stuðnings bandarískra gyðinga. Þeir styðji flesta aðra frambjóðendur sem gangi lengra en hann í stuðningi við stefnu Ísraelsstjórnar. 

Bernie sé hins vegar talsmaður fyrir réttindum Palestínumanna og grunaður um að styðja sniðgöngu á ísraelskum vörum, þar sem bróðir hans Larry, sem býr í Oxford, á Englandi styðji sniðgönguhreyfinguna.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV