Hófleg snjallsímanotkun gleður mannsins hjarta

19.09.2016 - 12:55
„Þegar við sögðum syni okkar að það hefðu ekki verið til neinir snjallsímar þegar við vorum lítil þá sagðí hann: þið heppin! Þið þurftuð þá ekki að keppa við símana um athygli foreldra ykkar,“ segir Aldís Arna Tryggvadóttir um það þegar hún fyrir fáum misserum áttaði sig á því að snjallsímanotkunin úr heimilinu væri kannski orðin of mikil.

„Við tókum okkur einfaldlega tak og skömmtum okkur tíma. Það gildir fyrir alla, foreldrana og börnin. Eftir að við gerðum þetta þá hefur allt verið uppá við, öll samskipti hafa batnað og lífið er bara enn betra en það var áður,“ segir Aldís Arna. 

Kjartan Ólafsson félagsfræðingur í Háskólanum á Akureyri segir að það þurfi kannski ekki endilega að hafa áhyggjur af tímanum sem fólk eyði í símanum. Meira skipti hvað verið sé að gera, að fólk sé að nota hann til að eiga sem fjölbreyttust og best samskipti. „En að sjálfsögðu er alltaf skaðlegast að gera of mikið af einhverju. Það er ekki gott að borða of mikið eða sofa of mikið og það sama á að sjálfsögðu við snjallsímanotkun, fólk þarf að hafa einhver mörk,“ segir Kjartan. 

Landinn fjallaði um þetta litla tæki sem stjórnar lífi okkar kannski meira en við viljum viðurkenna. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.