Höfðu ekki fjárveitingu í heitan mat um helgar

16.01.2016 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Í þessari einu þjónustumiðstöð var tekin sú ákvörðun um að bjóða upp á heitan mat um helgar án þess að það hefði verið samþykkt neins staðar eða fjárveiting hefði fengist til þessa verkefnis,“ segir Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi í Vikulokunum í morgun.

Fram kom í fréttum RÚV í desember að ekki yrði áfram boðið upp á heitan mat um helgar í Eirborgum í Grafarvogi. Þess í stað gefst eldri borgurum kostur á að panta kaldan tveggja daga gamlan mat og hita upp sjálfir.

Sóley segir að þetta sé ein af 17 félagsmiðstöðvum í Reykjavík. Þetta sé ekki hjúkrunarheimili eða öryggisíbúðir fyrir aldrað fólk heldur þjónustumiðstöð fyrir aldrað fólk í Grafarvogi. „Í öllum hinum þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og í öllum þjónustumiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu, og jafnvel þótt víðar væri leitað, er þetta með þessum hætti. Það að hætta að bjóða upp á heitan mat á þessum eina stað um helgar, er bara ákvörðun sem þurfti að taka.“

Í fréttum Stöðvar 2 í vikunni var rætt við þá sem nýta sér þjónustu mötuneytis Eirborga. Þar kom fram að eldri borgarar segja borgina líta fram hjá mikilvægasta þætti þjónustunnar, að njóta félagsskapar hvort annars. „Þjónusta við eldra fólk í Reykjavík er auðvitað ekki fullkomin,“ segir Sóley. „Við viljum auðvitað halda áfram að bæta þjónustu við gamalt fólk og hafa hana til fyrirmyndar, sporna gegn félagslegri einangrun og svo framvegis. Það snýst ekki um þessa einu afmörkuðu félagsmiðstöð. Við verðum að sjá þetta í stærra samhengi.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV