HM í beinni: Lokadagurinn - Úrslitin ráðast

13.08.2017 - 09:00
Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum lýkur í London í kvöld. Í dag er tíundi og síðasti keppnisdagur HM og RÚV sýnir að sjálfsögðu beint frá keppni dagsins, eins og hina daga mótsins. Sigurbjörn Árni Arngrímsson lýsir móti á RÚV og RÚV 2, og hann fer hér yfir það sem honum finnst mest spennandi í dag.

Útsending frá keppni kvöldsins hefst kl. 17:55 á RÚV og stendur yfir fram að fréttum kl. 19. Allt keppniskvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á RÚV 2.

Dagskráin á HM í dag

18:00 - Hástökk karla, úrslit
18:10 - Kringlukast kvenna, úrslit
18:35 - 5000 m hlaup kvenna, úrslit
19:10 - 800 m hlaup kvenna, úrslit
19:30 - 1500 m hlaup karla, úrslit
19:55 - 4x400 m boðhlaup kvenna, úrslit
20:15 - 4x400 m boðhlaup karla, úrslit

epa06136052 South Africa's Caster Semenya reacts after competing in the women's 800m heats at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Caster Semenya er líkleg til sigurs í 800 m hlaupinu.

Gullið ekki endilega frátekið í 800 m hlaupinu

„Í kvöld verður gaman að sjá úrslitin í 800 m hlaupi kvenna. Margir halda að gullið sé frátekið fyrir Caster Semenya frá Suður-Afríku í kvöld, en ég er ósammála því. Í hlaupi um daginn var Nyosaba ekki nema 20 hundraðshlutum á eftir Semenya. Svo er Ajee Wilson frá Bandaríkjunum líka mjög sterk. Þessar þrjár hafa allar hlaupið undir 1:56 mín. í ár. Þannig að ég held að þetta hlaup geti orðið mjög spennandi og skemmtilegt í kvöld,“ segir Sigurbjörn Árni.

epa06135813 Hellen Onsando Obiri of Kenya competes in the women's 5000m heats at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 10 August 2017.  EPA/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Hellen Onsando Obiri gerir tilkall til verðlauna í 5000 m hlaupinu.

Áhugavert 5000 m hlaup kvenna

„Svo eru úrslitin í 5000 m hlaupi kvenna í kvöld líka. Þar er Genzebe Dibaba frá Eþíópíu ekki með.  En það verður athyglisvert að sjá hvað Sifan Hassan frá Hollandi gerir í þessu hlaupi og svo Hellen Onsando Obiri frá Keníu. En svo má maður heldur ekki gleyma Almasz Ayana frá Eþíópíu. Hún hefur ekkert hlaupið af viti í ár fyrir þetta heimsmeistaramót. Þannig hún gæti verið óskrifað blað. Hún er heimsmethafi í 10.000 m hlaupi,“ segir Sigurbjörn Árni, en Ayana náði sér þó ekki á strik í 10.000 m hlaupinu fyrr á þessu heimsmeistaramóti.

epa06134636 Isaac Makwala from Botswana reacts during the 200m Men Semi-Final at the IAAF World Athletics Championships at the London Stadium, in the Queen Elizabeth Olympic Park in London, Britain, 09 August 2017.  EPA/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Isaac Makwala verður í hlaupasveit Botswana í kvöld.

Mótið endar á boðhlaupum

„Svo endar kvöldið auðvitað á boðhlaupunum. 4x400 m hlaup karla og kvenna. Bandaríkin ættu að sigra nokkuð örugglega hjá konunum og sennilega hjá körlunum líka. En þeir sem eru líklegastir til að veita karlasveit Bandaríkjanna keppni eru sennilega Botswanamenn. Þar fáum við Isaac Makwala í broddi fylkingar,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson sem lýkur HM vakt sinni í London fyrir RÚV í kvöld.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður