Hlutabréfaverð tekur dýfu í Persaflóaríkjum

17.01.2016 - 08:55
epa000284076 (FILES A file picture dated 14 July 2004 shows an oil well in Santa Cruz del Norte, Havana province,  World oil prices broke fresh records on Monday 27 September 2004 with US light crude poised to break through the 50 US Dollars a barrel mark
 Mynd: EPA  -  EFE FILES
Olíuverð á heimsmarkaði tók dýfu við opnun markaða í morgun. Nú þegar refsiaðgerðum hefur verið aflétt af Íran verður olíu- og gassala gefin frjáls, sem þýðir stórauknar tekjur fyrir Írana og mun að líkindum leiða til þess að heimsmarkaðsverð á olíu lækki enn.

Yfir 80 prósent af tekjum ríkjanna við Persaflóa eru af olíusölu og því getur samdráttur í sölu á olíu haft víðtæk áhrif. Í fyrsta sinn í tólf ár er olíutunnan komin niður fyrir 30 dali.  Á síðustu tveimur árum hefur olíuverð lækkað um 65 prósent. 

Hlutabréfamarkaðurinn í Sádí Arabíu, sem er sá stærsti í þessum heimshluta, opnaði klukkan átta í morgun að íslenskum tíma. Við opnun lækkaði hlutabréfaverð um 6,5 prósent. Verð á hlutabréfum lækkaði í öllum nema þremur af þeim 167 fyrirtækjum sem þar eru skráð. 

Mest lækkaði hlutabréfaverð við opnun markaða í Katar og Dubaí í morgun, þar lækkaði hlutabréfaverð um sex prósent við opnun en hækkaði síðan lítillega aftur. Í Kúveit lækkaði hlutabréfaverð um 2,4 prósent og hefur ekki verið lægri við opnun markaða frá árinu 2004. Í Oman lækkaði hlutabréfaverð um 1,5 prósent og Bahrein um 0,3 prósent. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV