Hljóðlaus ógn

27.02.2016 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hljóðlausir rafmagnsbílar ógna ferðafrelsi blindra og sjónskertra, sem treysta alfarið á hljóðmynd þegar þeir fara yfir götur og stræti. Í nýjasta hefti Víðsjár, rits blindrafélagsins, er fjallað um það sem þar er kallað hljóðlaus ógn og gæti valdið alvarlegu slysi. Evrópusambandið hafi nýlega sett reglur um takmörkun hljóðmengunar af umferð sem sé mikill streituvaldur. Þar hafi verið tekið tillit til blindra og sjónskertra og þurfi lágmarkshljóð að vera til staðar til að heyrist í tækjunum.

Því hafi verið þróaður búnaður sem gefur frá sér hljóð og settur er í hljóðlausa bíla eftir á. Segir í Víðsjá að þó að áfangasigur hafi unnist með reglugerð Evrópusambandsins dugi hún ekki til að tryggja öryggi blindra og sjónskertra. Fyrrnefndur búnaður verði ekki lögkrafa fyrr en eftir fimm ár og engin krafa sé gerð um hljóðgjafa þegar ökutæki eru kyrrstæð og aukinheldur geti ökumaður slökkt á honum. Nú þegar séu hljóðlaus ökutæki á götunum og jafnvel á gangstéttunum, til dæmis rafskutlur, og þau ógni ekki bara öryggi blindra heldur líka sjáandi. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV