Hláturgas bælir niður slæmar minningar

04.03.2016 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: GreenZeb  -  Wikimedia Commons
Hláturgas virðist hjálpa fólki að losa sig við óþægilegar minningar og jafna sig hraðar eftir áföll samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Vísindamenn við University College í Lundúnum sýndu fimmtíu sjálfboðaliðum myndir af nauðgunum og morðum. Helmingur úrtaksins varði næsta hálftíma í að anda að sér blöndu af hláturgasi og súrefni. Næstu daga ræddu sálfræðingar við fólkið og þeir sem fengu hláturgasið voru fljótir að gleyma þessum skelfilegu myndum og minningarnar leituðu lítið á þá. Þeir sem ekki fengu gasið voru mun lengur að jafna sig.

Við þetta má bæta að árið 1945 skrifaði heimspekingurinn Bertrand Russell um merkilega tilraun á nítjándu öld þegar maður var látinn anda að sér töluvert miklu hláturgasi og leysti sjálfa gátuna um tilgang lífsins. Viðkomandi gleymdi hins vegar svarinu eftir að víman rann af honum. Eftir margar tilraunir tókst honum loks að skrifa niður hver tilgangur lífsins var á meðan hann var í vímu. Á blaðinu stóð: „Bensínlykt ríkir allsstaðar."

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV