Hlakkar til vantrauststillögu

27.03.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra telur að það hefði verið siðferðilega varasamt ef hann hefði greint frá eignum eiginkonu sinnar. Hann hlakkar til þess að takast á við vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti inn langa bloggfærslu á síðu sína snemma á páskadagsmorgun. Í upphafi færslunnar, sem fyllir 12 útprentaðar blaðsíður, segir hann að ekki verði hjá því komist að ræða um stjórnmál á páskum að þessu sinni, þrátt fyrir að það sé varla viðeigandi.

Hann segist hafa gripið með afgerandi hætti inn í atburðarás íslenskra stjórnmála og boðað fordæmalausar aðgerðir til að verja hagsmuni almennings, þrátt fyrir að það gæti rýrt hagsmuni eiginkonu hans.

Fyrir það hafi hann verið kallaður lýðskrumari og annað þaðan af verra, en að sigur hafi þó náðst. Sigur sem hafi vakið athygli og undrun á alþjóðavettvangi og kallaður einstakur í fjármálasögu heimsins.

Til að gera þetta mögulegt hafi kona Sigmundar þurft að taka á sig enn meira tap, og hefði hún þó tapað miklu fyrir á að láta bankana geyma peningana sína.

Eftir stuttan inngang Sigmundar kemur sameiginleg færsla þeirra hjóna þar sem þau spyrja sig sjálf nokkurra spurninga og svara.

Það er rétt að halda því til haga að fréttastofa RÚV hefur leitað eftir viðtali við forsætisráðherra í 10 daga.

Sigmundur Davíð sagði í viðtali á þættinum Sprengisandi á umsjá Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun að honum hafi ekki borið siðferðileg skylda til að greina frá eignum konu sinnar á Bresku Jómfrúareyjum, öðru nær.

„Með því hefði ég jafnvel verið að gefa til kynna að þetta væru einhverjir hagsmunir sem þeir ættu að hafa í huga. Þess vegna hefði það verið beinlínis varasamt að ég færi að gefa þessu fólki einhver skilaboð um það að konan mín ætti þarna eitthvað undir, að konan mín myndi tapa ennþá meiri peningum, ef planið sem ég væri að berjast fyrir, næði fram að ganga.“

Fram hefur komið í fréttum að stjórnarandstaðan íhugi að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra. Hann hlakkar til þess.

„Ja, ég vona að þau guggni ekki á að koma með þetta vantraust. Nú eru páskarnir komnir og ég er farinn að hlakka til næsta áfanga, sem er vantrausttillaga stjórnarandstöðunnar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Bylgjunni í morgun.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV