Hjúkrunarheimili stefni í gjaldþrot

15.01.2016 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: ??  -  ruv.is
Hjúkrunarheimili verða gjaldþrota ef þau fá ekki aukið fjármagn. Þetta er mat Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Verði ekkert að gert bitni það á öldruðum á hjúkrunarheimilum.

Fjárhagsstaða hjúkrunarheimila í landinu er mjög bágborin og er talið að einn og hálfan milljarð vanti í reksturinn á ári. Í síðasta mánuði þurftu stjórnendur heimilanna að fara þess á leit við ríkið að það greiddi janúargreiðslu til heimilanna fyrirfram svo hægt væri að greiða út laun um áramótin. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu boðuðu til neyðarfundar vegna þessarar stöðu í dag.

„Niðurstaðan var ályktun þar sem kemur fram áskorun til ríkisvaldsins um aukið fjármagn í málaflokkinn og að beita sér fyrir því að samningum verði lokið, þjónustusamningi við hjúkrunarheimilin. Og við óskum eftir fundi með forsætis-, fjármála- og heilbrigðisráðherra um þessi mál í heild sinni,“ segir Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Nú hefur heilbrigðisráðherra sagt að auknu fé verði veitt í að byggja hjúkrunarheimili, er það ekki nóg?

„Það er ágætt og mjög gott að fá aukið fjármagn í byggingar. En það dugar ekki þeim sem eru að reka þetta og vantar pening. Þannig að það dugar ekki.“

Hversu alvarlegur er vandinn?

„Hann er mjög alvarlegur. Við fengum skýrslu frá Akureyrarbæ á þessum fundi þar sem kemur fram að áætlaður launakostnaður er 101% af rekstrarkostnaði á þessu ári. Hann ætti samkvæmt góðum siðum og venjum að vera kannski 80-85%. Þannig að þar er vandinn verulegur. Garðabær er í vandræðum, Hrafnista hefur tapað mörg hundruð milljónum á nokkrum árum. Þannig að það er víðast hvar rekstrarhalli.“

Stefnir í þrot hjúkrunarheimila?

„Ef ekkert er að gert stefnir í það. Vissulega. Og við sjáum dæmi um það, Sunnuhlíð fór í þrot fyrir rúmu ári og ríkið tók það yfir. Þannig að við getum horft á fleiri slík dæmi ef ekkert verður að gert.“

En kemur þessi staða niður á þjónustunni við heimilisfólkið?

„Við viljum vonast til að svo sé ekki. En ég get svo sem ekki svarað fyrir alla. Ég er hræddur um að það gerist einhvers staðar og eftir því sem tíminn líður og fjármunirnir koma ekki til okkar mun það bitna á heimilisfólkinu,“ segir Gísli Páll.