Hjúkrunarheimili fái meira fé

19.03.2016 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti í gær að fela heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra að ræða við þá sem reka hjúkrunarheimili um styrkingu á rekstrargrunni heimilanna. Nú er rætt um þjónustusamninga vegna hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum.

 

 Heilbrigðisráðherra telur rök standa til þess að auka fjármagn til reksturs þeirra á árinu. Staða heimilanna er misjöfn. Breyting sem gerð var 2008 á mati á þörf fólks fyrir búsetu á hjúkrunarheimili og hlutfallsleg fjölgun aldraðra hefur orðið til þess að þeir sem fara inn á hjúkrunarheimili eru veikari en áður var og þurfa meiri hjúkrun. Fjárveitingar til heimilianna hafa verið auknar í takt við verðlag og launaþróun en ekki hefur verið tekið tillit til þess að heimilismenn þurfa meiri þjónustu. Á vef velferðarráðuneytisins er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra að þó að deila megi um hve há daggjöldin eigi að vera sé alveg ljóst að það verði að styrkja rekstrargrunninn. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV