Hiti um allt land síðdegis á morgun

20.01.2016 - 09:28
Mynd með færslu
Spákort Veðurstofunnar fyrir fimmtudag 21. jan. síðdegis  Mynd: Veðurstofa Íslands
Það byrjar að blása á Suður- og Vesturlandi í dag og búast má við suðaustan kalda eða strekkingi síðdegis. Það verður skýjan og smá úrkoma og hitinn fer upp fyrir frostmark. Fyrir norðan og austan verður hins vegar bjart og þar dregur úr frosti seinni part dags.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar. Á morgun verður hvassara þegar hann gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu og súld en þurrt norðantil bróðurpart dags.

Sunnanvindurinn á það til að blása burt köldu lofti og því má gera ráð fyrir að síðdegis á morgun verði hitatölur rauðar um allt land, allt að 8 stigum þar sem hlýjast verður.

Segir í hugleiðingum veðurfræðingsins að eitthvað muni blása og rigna um helgina og því verði „fróðlegt að sjá hvort gusur vikunnar teljist til spilliblota eða svellabana.“ Ýmsir vonist eftir því síðarnefnda en það fyrrnefnda sé þó líklegra enda varla hægt að ætlast til þess að svell taki upp í janúar.

Spillibloti er það kallað þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær allur að bráðna. Er þetta eitt óvinsælasta veðurlag á Íslandi og hefur verið lengi.

 

 

Mynd með færslu
Lára Ómarsdóttir