Hitafundur íbúa og HSU á Hvolsvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Um 400 manns fylltu félagsheimilið Hvol á Hvolsvelli í kvöld á íbúafundi með framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Fundurinn var vegna óánægju heimamanna í Rangárþingi Eystra með skerta þjónustu heilsugæslustöðvarinnar á Hvolsvelli. Á fundinum urðu heitar umræður í hálfa þriðju klukkustund.

Opnun stöðvarinnar á Hvolsvelli var seinkað um tvo og hálfan mánuð eftir sumarlokun, síðan er opið þrjá daga í viku í stað fimm áður. Íbúar gagnrýndu framkvæmdastjórnina harðlega fyrir þjónustuskerðingu og lýstu ótta um að loka ætti heilsugæslustöðinni. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU sagði að það stæði alls ekki til að loka stöðinni á Hvolsvelli. Breytingarnar væru til að auka heimahjúkrun á svæðinu og til stæði að láta reyna á þær til vors.

Sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi Eystra gáfu lítið fyrir skýringar forstjórans og gagnrýndu stjórn heilbrigðisstofnunarinnar fyrir skort á upplýsingum og samstarfsvilja. Margir tóku til máls á fundinum. Þar á meðal voru starfsmenn stofnunarinnar sem búsettir eru í Rangárþingi, sem gagnrýndu bæði skerðingu á þjónustu og skort á upplýsingum. Herdís Gunnarsdóttir sagðist skynja óánægju íbúa og bauð samráð á faglegum grundvelli. Hún myndi taka með sér af fundinum þær upplýsingar sem hún hefði fengið, en skilja sleggjudómana eftir.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV