Hið nýja samfélag án ábyrgðar og áfalla

01.02.2016 - 08:37
Óttar Guðmundsson geðlæknir segir afgerandi stuðning við líknardráp lýsa ómanneskjulegu samfélagi og þeirri heimtingu að allt gangi áfallalaust fyrir sig. Könnun á vegum Siðmenntar leiddi nýverið í ljós að mikill meirihluti landsmanna er hlynntur lögleiðingu líknardrápa. Þá segir hann hugtök eins og einelti og áfall útvötnuð.

„Þessi afgerandi afstaða kom mér á óvart þar sem engin afgerandi umræða hefur farið fram í samfélaginu,“ sagði Óttar Guðmundsson, geðlæknir í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann ritaði nýverið pistil í Stundina um málið sem vakið hefur athygli. Þar sagði hann afstöðuna meðal annars lýsa því hversu ómanneskjulegt samfélagið sé orðið í sjálfhverfu sinni.

„Það er þetta, „það á ekkert að geta komið fyrir mig“. Þetta nýja samfélag sem gengur út á það að vera algjörlega stikkfrí gagnvart öllum áföllum og gagnvart öllu sem að mögulega gerist. Ég á að vera öruggur fyrir öllu, þetta samfélag á að vera fyrirsjáanlegt og ef eitthvað kemur fyrir mig er það öðrum að kenna.“

Óttar hefur líka lýst þeirri skoðun sinni í pistlum að búið sé að útvatna gengisfella orðin áfallahjálp og áfallastreituröskun. Það sé slæmt fyrir þá sem virkilega þurfa á áfallahjálp að halda. Sama eigi við um hugtakið einelti.

„Allt er skilgreint sem einelti. Þetta er lítilsvirðing við þá sem raunverulega hafa upplifað einelti. Af því að ég hef unnið svo mikið með sjálfsvíg þá veit ég hversu skaðlegt alvarlegt einelti er fyrir einstakling. Þar þarf raunverulega að grípa inn í. En þegar þingmenn geta staðið bísperrtir í pontu og sagst hafa orðið fyrir einelti eða að ráðherra hafi orðið fyrir einelti erum við búin að lýsa frati yfir þá sem raunverulega hafa orðið fyrir einelti.“

Viðtalið við Óttar má hlusta á í heild hér að ofan.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV