Heyrðu ískrið í bílnum og skelfileg vein

17.08.2017 - 16:51
Mynd með færslu
Þessa mynd tóku hjónin af sér fyrr í ferðalaginu.  Mynd: Líney Árnadóttir
Hjónin Líney Árnadóttir og Magnús Jósefsson eru í sumarfríi í Barselóna og voru rétt við Römbluna þegar hryðjuverkaárás var gerð þar nú síðdegis sem varð fjölda fólks að bana. „Við vorum kannski svona 100 metrum frá þessu,“ segir Líney, sem bíður nú frekari frétta í anddyri hótels þar sem starfsmenn hleyptu þeim hjónum inn ásamt fleirum og læstu svo dyrunum.

Líney og Magnús voru á gangi á götunni Carrer de la Boqueria í gotneska hverfinu á leið að markaði á torgi á horni götunnar og Römblunnar. „Við vorum alveg að koma á torgið þegar við heyrum hróp og öskur og ískur í bílnum og skelfileg vein,“ segir Líney. „Fólk hrópaði „run run!““ lýsir hún og segir þau hjónin þá hafa tekið til fótanna í hina áttina, í átt frá Römblunni.

„Við héldum kannski að það hefði orðið árekstur – að þetta hefði ekki verið svona alvarlegt,“ segir Líney, en fljótlega hafi hins vegar gripið um sig örvænting á nýjan leik. „Það varð agalegt panikk aftur, fólk hljóp og einhver hrópaði „vopnaðir menn, vopnaðir menn!“ – við hlupum líka og inn á þetta hótel þar sem við sitjum enn,“ segir hún og kveður þau hjónin þá hafa orðið skelkuð.

Þau komu til Barselóna á mánudag en vita nú ekki hvert framhaldið verður. „Við förum að minnsta kosti ekkert út héðan fyrr en við vitum betur hvað er að gerast,“ segir hún.

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV