Hert vopnaeftirlit verður kosningamál

06.01.2016 - 10:12
Barack Obama hóf síðasta ár sitt í embætti forseta Bandaríkjanna með því að kynna á tilfinningaþrungnum fundi í Hvíta húsinu tilskipanir sem takmarka eiga aðgang að skotvopnum. Þar með gerir Obama hert vopnaeftirlit að einu þeirra mála sem kosið verður um í nóvember, segir Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem ræddi byssunotkun í Bandaríkjunum og stefnu forsetans á Morgunvaktinni á Rás 1.

Kosnir verða fulltrúar til beggja deilda þings (34 af 100 öldungardeildarþingmönnum) jafnhliða forsetakosningum í Bandaríkjunum 8.nóvember á þessu ári. Fyrstu forkosningarnar fara fram í Iowa 1.febrúar og í New Hampshire 9.febrúar.

Silja Bára Ómarsdóttir segir að eftir þessar kosningar skýrist hverjir frambjóðendanna eru líklegastir til að halda áfram þeirri langvinnu baráttu sem framundan er. Með útspili sínu hafi Obama sett byssumálið á dagskrá kosningabaráttunnar. Þingið geti takmarkað áhrif tilskipana forsetans - en hann aftur á móti neitað að staðfesta lög frá þinginu.

Hillary Clinton, sem leiðir í baráttuna fyrir tilnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, styður stefnu forsetans í vopnamálunum, en þeir sem keppa um tilnefningu Repúblikanaflokksins eru mjög andvígir takmörkunum á vopnaeign. Athygli vekur að í þeim efnum ganga þeir miklu lengra en flokksbróðir þeirra og átrúnaðargoð Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, var tilbúinn að gera. Árið 1991 hafði hann áform um miklu meiri takmarkanir en tilskipanir Obama fela í sér 25 árum síðar. Silja Bára sagði þetta til merkis um þá þróun sem orðið hafi á hægri væng stjórnmálanna á tímabilinu.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi