Herjólfur aftur í slipp um miðjan september

12.07.2017 - 09:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er að verða sorgarsaga,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum en Vegagerðin hefur tilkynnt bænum að Herjólfur þurfi aftur að fara í slipp eftir miðjan september vegna óvæntra skemmda sem komu í ljós þegar skipið var í slipp í maí. Áætlað er að viðgerðin taki 19 daga. „Ábyrgðin er mikil hjá þeim sem eiga að finna skip í staðinn,“ segir bæjarstjórinn.

Herjólfur fór í slipp í lok apríl og sneri aftur í maí. Á meðan þurftu Eyjamenn að reiða sig á Baldur en hann hefur ekki siglingaleyfi í Þorlákshöfn og fyrir kom að ferðir til og frá Landeyjahöfn voru felldar niður vegna veðurs.

Elliði segist hafa fullan skilning á því að gömul skip bili meira en ný. Þetta sé þó að verða sorgarsaga.  „September hefur verið mun erfiðari en júní, júlí og ágúst þannig að það er mikilvægt að hafa skip sem ræður bæði við Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.“ 

Elliði segir að ein lausnin geti verið sú að fresta því að taka Herjólf í slipp fram í október og fá þá tvö skip til að sinna þessum siglingum - annað í Landeyjahöfn en hitt í Þorlákshöfn. 

Nýr Herjólfur er  væntanlegur til Eyja í júní á næsta ár. Elliði segir mikilvægt að sá sigli meira en sá gamli gerði. Eins og fram kom í fréttum fyrr í sumar hafa Eyjamenn áhuga á að reka nýja skipið sjálfir og Elliði segir bæjarfélagið í viðræðum við samgönguráðherra. „Við erum að láta vinna lögfræðiálit á stöðunni og komum til með að láta á þetta reyna.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV