Herja á fatlaðar konur

01.03.2016 - 18:59
Hæstiréttur og héraðsdómur hafa synjað beiðni lögreglunnar um að hneppa mann í gæsluvarðhald þótt grunur leiki á að hann hafi gerst sekur um að hafa brotið kynferðislega gegn þroskaskertri konu. Lögreglan telur að það færist í vöxt að karlmenn af erlendum uppruna herji á fatlaðar konur með hjónaband í huga til þess að tryggja sér landvistarleyfi.

Systir konunnar hafði samband við lögreglu fyrir viku og upplýsti að konan væri greindarskert, maðurinn hefði flutt inn til hennar og þrýsti á hana um að giftast sér.

Konan hefur sjálfræði en verið svipt fjárræði og fær aðstoð frá félagsþjónustunni við þrif, þvotta og innkaup. Hún tjáði lögreglunni að maðurinn hefði búið hjá sér í hálfan mánuð og væri búinn að fara með pappíra vegna hjúskaparvottorðs til sýslumanns. Staðfest er af báðum að samband þeirra sé kynferðislegt. Maðurinn segir að þau hafi kynnst í gegnum facebook og að það sé hún sem þrýsti á um hjónaband því hún hafi áhyggjur af því að hann verði sendur úr landi.

Lögregla telur rökstuddan grun um að eini tilgangur hans með því að stofna til hjúskapar við hina þroskaskertu konu sé að tryggja sér dvalarleyfi hér á landi. 

Rannsóknir hafa sýnt að það færist í vöxt í nágrannaríkjum Íslands að karlmenn af erlendum uppruna herji á fatlaðar konur með hjónabönd í huga til þess að tryggja sér landvistarleyfi. Samkvæmt heimildum fréttastofu telur lögreglan að slíkt færist einnig í vöxt hér á landi.

Helga Björgvins- og Bjargardóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks telur að Íslendingar þurfi að vera vakandi gagnvart þessari þróun. Það megi þó ekki vera á kostnað þess að fötluðum konum sé meinað að vera í sambandi eða ganga í hjónaband.

Hún segir að eðlilega hafi ættingjar áhyggjur af þroskaskertum ástvinum, en erfitt sé að fullyrða að áhyggjur eða mat þeirra vegi þyngra en mat konunnar sjálfrar á sínum aðstæðum.
„Mér finnst skipta mestu máli að hún fái stuðning til þess að taka sínar ákvarðanir, að þær litist ekki af því hvað þessi maður vill eða hvað ættingjar hennar vilja, að hún taki ákvarðanir fyrir sig, að það sé einhvern veginn í boði,“ segir Helga.

Hún segir að þetta mál sé hluti af stærra vandamáli og endurspegli aðkallandi þörf á að íslensk stjórnvöld innleiði sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Hún segir að það geti vegið mjög þungt í afstöðu dómstóla til gæsluvarðhaldsúrskurðar að konan er með fullt sjálfræði.
„Og það á að vega mjög þungt, vegna þess að fólk með þroskahömlun má alveg líka vera í vondum samböndum eins og aðrir, en það þarf alltaf að taka tillit til þess ef það er aðstöðumunur og ef það er hægt að koma í veg fyrir að aðilar misnoti sér aðstöðu sína gagnvart fólki með þroskahömlun.“

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV