Héraðsdómur og Landsréttur á stjórnarráðsreit?

27.03.2017 - 18:43
Til greina kemur að byggt verði bæði yfir Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt á stjórnarráðsreitnum í Reykjavík. Landsréttur, sem á að taka til starfa um næstu áramót, verður í Kópavogi til bráðabirgða. Unnið er að því að breyta fyrrum húsnæði Siglingamálastofnunar í dómstól.

Til greina kemur að byggt verði bæði yfir Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt á stjórnarráðsreitnum í Reykjavík. Landsréttur, sem á að taka til starfa um næstu áramót, verður í Kópavogi til bráðabirgða. Unnið er að því að breyta fyrrum húsnæði Siglingamálastofnunar í dómstól.

Þriðja dómstigið, Landsréttur, á að taka til starfa frá og með næstu áramótum. Samkvæmt lögum átti dómstóllinn að hafa aðsetur í Reykjavík en þrátt fyrir mikla leit fannst ekkert hentugt húsnæði. Niðurstaðan var að breyta fyrrum húsnæði Siglingamálastofnunar á Kársnesi í Kópavogi. Kristín Haraldsdóttir, sem hefur yfirumsjón með undirbúning nýja dómstólsins, segir að það sé í mörg horn að líta. Nú sé unnið að breytingum á húsnæðinu í Kópavogi.

 Það þarf að hanna þarna dómsali og tryggja að öll aðkoma verði þannig að hún hæfi dómstól.

Horft til stjórnarráðsreitsins

Húsnæðið í Kópavogi er til bráðabirgða og breyta þurfti lögunum til að löglegt væri að nýta húsnæðið í Kópavogi.  Framtíðaráformin eru að Landsréttur fái aðstöðu í virðulegu húsi í höfuðstaðnum eða húsi sem sómi sér vel fyrir dómstól. Kristín óttast ekki að Landsréttur verði um ókomna tíð í Kópavogi.  Hún segir að unnið sé að framtíðarstaðsetningu og horft sé til svokallaðs stjórnarráðsreitar sem afmarkast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.

Samhliða þessu er verið að hugsa til þess hvort ekki sé hægt að koma þar fyrir á sama reit Héraðsdómi Reykjavíkur.

Byrjað er að vinna frummatsskýrslu um staðsetningu Landsréttarins og næsta skref er að taka fyrir Héraðsdóm. En er verið að tala um að þessir tveir dómstólar verið í sama húsi.

 Það er allt saman spurning um ásýnd. Það þarf að tryggja það að ásýndin sé þannig að það sé skýrt og veki engin þau hugrenningatengsl að þarna séu of mikil tengsl á milli því þetta eru tveir sjálfstæðis dómstólar.

Forsetinn mætir til vinnu 1. ágúst

Nú er verið að fara yfir  umsóknir þeirra 37 sem sóttu um 15 stöður dómara við Landsrétt. Þegar ákveðið hefur verið hverjir hreppa stöðurnar mun þessi 15 dómara hópur velja hver verður forseti réttarins. Dómararnir  hefja störf þegar nær dregur áramótum en forsetinn mætir í vinnuna 1. ágúst.

Landsréttur er áfrýjunardómstóll. Með tilkomu hans er tryggð milliliðalaus sönnunarfærsla á tveimur dómstigum, fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Til að það gangi eftir þarf að huga að ýmsum tækjakosti bæði í héraði og við hinn nýja dómstól.

Á þessu dómstigi á að vera hægt að endurmeta sönnunrafærslu sem fram fer í héraði. Þá þarf að vera útbúnaður til þess að það sé hægt að spila í hljóði og mynd sönnunarfærslu sem fram hefur farið í héraði til að koma í veg fyrir að í öllum tilvikum þurfi að kalla aftur til vitni.